145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

apótek og lausasala lyfja.

570. mál
[18:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jóhanna María Sigmundsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum svörin og hv. þingmanni fyrir að taka þátt í umræðunni.

Það er einmitt þetta sem ég hef svolítið velt fyrir mér í sambandi við þessa umræðu, hvaða forsendur séu í rauninni fyrir því að leyfa ekki sölu ólyfseðilsskyldra lyfja í smærri pakkningum utan lyfjabúða eða útibúa sem fara með lyfjasölu. Ég velti fyrir mér þar sem apótek eru lokuð yfir helgar hvort ekki mætti hafa pakkningar með ráðlögðum neysluskammti til sölu í búðum, því að fólk velur sér ekki hvenær það veikist, veikindin geta þess vegna hafa komið upp á föstudegi eftir lokun apóteks og þá þarf fólk að bíða fram yfir helgi.

Þá vil ég spyrja ráðherrann aðeins út í það að upplýsingar hafi ekki legið fyrir um tafir á lyfjasendingum. Á ráðherra þá við að ekki hafi orðið neinar tafir eða bara að upplýsingarnar séu ekki til og ekki skráðar?

Ég vil þakka hæstv. ráðherra þá áherslu sem hann lagði í orðum sínum þegar hann kom inn á ákvæði í frumvarpi til nýrra lyfjalaga, það er mjög ánægjulegt að tekið verði á þessum þáttum í þeim lögum þar sem þetta ákall hefur komið frá smærri og brothættari byggðum. Það er vonandi að þau fái einhverja úrlausn í þessum málum og sitji ekki aftar á hestinum hvað varðar eins einfaldan hlut og það að fólk geti komist í apótek og fengið úthlutað lyfjum sem geta verið því nauðsynleg.