145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

apótek og lausasala lyfja.

570. mál
[18:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Það var í mínum hug algjörlega tímabært að endurskoða og setja fram stefnu í lyfjamálum til lengri tíma og sömuleiðis að endurskoða lyfjalögin. Þau eru barn síns tíma og full ástæða til þess að laga þau einfaldlega að þeim veruleika sem við búum við í dag. Hluti af þeim nauðsynlegu breytingum sem þar þurfa að eiga sér stað endurspeglast ágætlega í orðræðu þeirra tveggja hv. þingmanna sem hér hafa rætt málið. Við hljótum að geta lagað regluverkið að raunveruleika dagsins í dag eins og hann birtist fólki í stað þess að búa til hindranir fyrir aðgengi að nauðsynlegri vöru. Það er meginverkefnið sem ég tel að við þurfum að reyna að vinna sameiginlega að. Ég vænti þess að frumvarpið sem kemur fram innan tíðar um ný lyfjalög innihaldi þessa þætti og þingið taki því fagnandi og geri eftir atvikum breytingar í meiri frjálsræðisátt eða í átt að betra regluverki ef því sýnist svo. Ég tel þetta nauðsynlega vinnu og hlakka til að sjá hvernig þingið tekur í það frumvarp.

Varðandi fyrirspurn hv. málshefjanda Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur um yfirlit yfir seinkun eða tafir á lyfjasendingum þá hef ég ekki upplýsingar um það. Ég þekki það ekki hvort einhverjar tafir hafi orðið, af þeirri einföldu ástæðu að Lyfjastofnun hafði ekki upplýsingar um slíkt. Það er ástæðan fyrir því hvernig svar mitt hljóðaði.