145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

skil sérfræðilækna á starfsemisupplýsingum.

579. mál
[18:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Á 143. þingi lagði ég fram skriflega fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra varðandi fegrunar- og lýtaaðgerðir á kynfærum kvenna. Í svari hæstv. ráðherra kom fram að ekki lágu fyrir upplýsingar hjá embætti landlæknis um fjölda þeirra aðgerða sem spurt var um.

Í svarinu kom einnig fram að landlæknir kallar árlega inn upplýsingar frá öllum sjálfstætt starfandi sérfræðingum á landinu, þar á meðal lýtalæknum. Skil sérfræðinga á starfsemisupplýsingum til embættisins hafa aukist ár frá ári, eða höfðu þá aukist ár frá ári samhliða innleiðingu á rafrænni sjúkraskrá sem auðveldaði gagnaskilin.

Yfir 90% sérfræðinga skiluðu inn starfsemisupplýsingum fyrir árið 2012. Lýtalæknar voru meðal þeirra sérfræðinga sem ekki höfðu skilað inn upplýsingum til embættisins þrátt fyrir innköllun og því lágu ekki fyrir upplýsingar um framangreindar aðgerðir. Sömu reglur gilda um upplýsingagjöf lýtalækna til landlæknis og annarra heilbrigðisstarfsmanna. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, skipuleggur landlæknir og heldur skrár á landsvísu um heilsufar, sjúkdóma, slys, lyfjaávísanir, fæðingar og starfsemi og árangur heilbrigðisþjónustunnar. Á þessu byggjum við síðan starfið. Í ákvæðinu er jafnframt kveðið á um skyldur heilbrigðisstarfsmanna til að veita landlækni þær upplýsingar sem honum eru nauðsynlegar til að halda heilbrigðisskrá.

Þann 22. apríl 2015 komu svo fulltrúar frá embætti landlæknis á fund velferðarnefndar Alþingis til að ræða eftirlit með lyfjaávísunum og lyfjanotkun og sjálfstætt starfandi læknum. Ég átti tækifæri á að sitja þann fund. Þar kom meðal annars fram að illa hefði gengið að afla fullnægjandi upplýsinga í þágu eftirlitsins frá sumum sjálfstætt starfandi sérfræðingum, svo sem geðlæknum og lýtalæknum sem hafi borið við persónuvernd.

Virðulegi forseti. Vissulega snýst heilbrigðisþjónusta oftar en ekki um viðkvæmar upplýsingar. En ég á erfitt með að átta mig á því hvernig lýtaaðgerðir sem stundum eru aðgerðir á heilbrigðum vef geta verið vandmeðfarnari upplýsingar en meðferð sjúkdóma. Er brjóstastækkun viðkvæmari en krabbamein í brjósti sem leiðir til brjóstnáms? Aðgerð á kynfærum viðkvæmari en fleygskurður eða meðferð við kynsjúkdómi?

Ég vil því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort ræst hafi úr skilum sjálfstætt starfandi geðlækna og lýtalækna í þágu eftirlits embættis landlæknis.

Hefur hlutfall sérfræðinga sem skila starfsemisupplýsingum hækkað frá árinu 2012? Hafa skil á upplýsingum frá lýtalæknum aukist? Hvernig hefur landlæknir fylgt eftir lagaskyldu til upplýsingaöflunar frá sjálfstætt starfandi læknum í þágu eftirlits? Hvaða úrræði hefur landlæknir til að fylgja upplýsingaöflun eftir? Telur ráðherra stöðuna á skilum sérfræðilækna á starfsemisupplýsingum viðunandi?