145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

skil sérfræðilækna á starfsemisupplýsingum.

579. mál
[18:08]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrirspurnina. Hún beinir til mín nokkrum spurningum um skil sérfræðilækna á starfsemisupplýsingum. Ég skal reyna að svara eftir bestu föngum.

Í fyrsta lagi varðandi hlutfall sérfræðilækna sem skila starfsemisupplýsingum, hvort það hafi hækkað frá 2012. Nei, það hefur ekki hækkað. Árið 2012 voru 92% lækna sem skiluðu inn starfsemisupplýsingum eða voru í sambandi við embætti landlæknis með skilin. Árið 2013 var hlutfall þeirra sem skiluðu upplýsingum 87,3% og árið 2014 var hlutfall þeirra orðið 85,5%.

Skil á upplýsingum frá lýtalæknum, þegar um það er spurt, þá er það, samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis, einungis einn lýtalæknir af níu starfandi lýtalæknum sem hefur skilað inn umbeðnum starfsemisupplýsingum fyrir árið 2012 og 2013.

Í þriðja lagi er spurt um það hvernig landlæknir hefur fylgt eftir lagaskyldu til upplýsingaöflunar frá sjálfstætt starfandi læknum í þágu eftirlits. Landlæknir hefur frá árinu 2010 kallað árlega eftir starfsemisupplýsingum í samskiptaskrá sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Landlæknir hefur beint tilmælum um úrbætur til þeirra lækna sem ekki hafa orðið við innköllun embættisins um upplýsingar. Vegna þeirra sem urðu ekki við tilmælum landlæknis var erindi í kjölfarið sent til ráðherra.

Hvaða úrræði hefur landlæknir til að fylgja upplýsingaöflun eftir? Samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, á landlæknir að beina tilmælum til rekstraraðila telji hann að heilbrigðisþjónustan uppfylli ekki skilyrði í heilbrigðislöggjöf. Landlækni ber að skýra ráðherra frá málinu verði rekstraraðili ekki við slíkum tilmælum. Auk þessa úrræðis getur landlæknir, ef heilbrigðisstarfsmaður brýtur í bága við heilbrigðislöggjöf landsins, áminnt eða svipt viðkomandi heilbrigðisstarfsmann starfsleyfi.

Loks er spurt hvort ráðherra telji stöðuna á skilum sérfræðilækna á starfsemisupplýsingum viðunandi. Samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu skal landlæknir halda heilbrigðisskrár á landsvísu um heilsufar, sjúkdóma og slys og lyfjaávísanir, fæðingar og starfsemi og árangur heilbrigðisþjónustunnar. Tilgangur skránna er að afla þekkingar um heilsufar og heilbrigðisþjónustu, hafa eftirlit með þjónustunni ásamt því að nota þær við gerð áætlana um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu og vísindarannsóknum. Það er því afar mikilvægt hlutverk sem embættið gegnir að þessu leyti til.

Hér kunna þó, eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni, að mætast ólíkir hagsmunir, báðir mikilvægir og umhugsunarverðir; annars vegar hagsmunir heilbrigðiskerfisins og þjóðarinnar af því að embætti landlæknis geti uppfyllt lagaskilyrði sín og hins vegar í sumum tilvikum hagsmunir sjúklings og trúnaðarskylda lækna gagnvart sínum sjúklingum, sem á sér stoð í lögum um sjúkraskrár, nr. 55/2009. Um þetta hefur lengi verið deilt.

Ég lít svo á að lagastoð landlæknis til að safna og vinna upplýsingar í samskiptaskrá sjálfstætt starfandi sérfræðinga sé skýr í lögum um landlækni og lýðheilsu og því getur ekki talist viðunandi að hluti sérfræðilækna, eða allt að 15%, skili ekki inn umbeðnum upplýsingum.

Ég veit að landlæknir er að skerpa á þessum reglum hjá sér, meðal annars með því að breyta eyðublöðum þannig að læknar sem hefja starfsemi skuldbindi sig til að skila þessum upplýsingum. Það eru einhverjar áherslubreytingar og meiri áherslu er að vænta á þessa hluti í störfum landlæknis.