145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

skil sérfræðilækna á starfsemisupplýsingum.

579. mál
[18:12]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Mér finnst algjörlega óþolandi og ólíðandi að lýtalæknar — þetta eru sérstaklega lýtalæknar — skili ekki umbeðnum upplýsingum til landlæknis. Allar þessar upplýsingar eru dulkóðaðar hjá landlækni þannig að ekki verður farið að skoða þær með tilliti til þess hvort sjúklingurinn heitir Anna, Sigríður eða Pálína eða hvað.

Heilbrigðisstarfsmenn hafa þungar áhyggjur af því að verið er að gera aðgerðir á sköpum kvenna og ekki síst ungra stúlkna. Það getur valdið þeim erfiðleikum síðar á ævinni. Lýtalæknar neita að gefa upplýsingar um hvað þetta eru margar aðgerðir.

Ég ætla (Forseti hringir.) bara að segja það, virðulegi forseti, að mér finnst þetta hneyksli. Ég ætla að vona að ráðherra standi við það að landlæknir (Forseti hringir.) sækist eftir því að menn uppfylli þær skyldur sínar að skila þessum upplýsingum.