145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

skil sérfræðilækna á starfsemisupplýsingum.

579. mál
[18:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. ráðherra Kristjáni Þór Júlíussyni svörin og hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur innleggið í umræðuna. Mér finnst hins vegar mjög miður og algjörlega óviðunandi að heyra að dregið hafi úr skilum á þessum upplýsingum. Eins og ráðherra rakti þá er það mjög mikilvægt fyrir þróun og gæði heilbrigðisþjónustunnar að við vitum hvaða heilbrigðisþjónustu er verið að sinna. Þó að þarna vegist á hagsmunir einstaklinga og þjóðarinnar þá geta það, þegar upp er staðið, verið mjög mikilvægir hagsmunir þessara sömu einstaklinga að upplýsingarnar liggi fyrir og skili sér.

Ég vil þess vegna fagna því að landlæknir skuli vera að vinna að því að skerpa á reglum og skýra skyldur lækna í þessum efnum. Ég mun spyrja þessara spurninga áfram á næsta ári og fá að fylgjast með.

Aðeins aftur að því hvers vegna þessar upplýsingar eru mikilvægar. Heilbrigðisstarfsmenn, ljósmæður, kven- og fæðingarlæknar, hafa haft áhyggjur af því að ýmislegt bendi til þess að tíðni lýtaaðgerða á kynfærum kvenna fari vaxandi. Áhyggjurnar stafa af því að langtímaáhrif slíkra aðgerða á lífsgæði einstaklinga eru lítt þekkt, hvorki áhrif á meðgöngu og fæðingu né yfir æviskeiðið. Meðan upplýsingarnar fást ekki er erfitt að segja til um hvort ástæða sé til að bregðast við á einhvern hátt. Að sama skapi er það áhyggjuefni, ef rétt reynist, að verið sé að framkvæma lýtaaðgerðir af þessu tagi á börnum undir 18 ára aldri.