145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ráðaleysi stjórnvalda í uppbyggingu innviða í landinu er algjört eins og heyra mátti á ráðherra ferðamála í Kastljósinu í gær. Fram undan er 40% aukning á fjölda ferðamanna til landsins. Greinin hefur aflað gjaldeyris svo hundruðum milljarða skiptir. Gjaldeyrir vegna ferðaþjónustunnar hefur aukist um 100 milljarða á síðustu tveimur árum. Stjórnvöld hafa sýnt algjört andvaraleysi að mínu mati og skilningsleysi varðandi fjármögnun innviða og á samgöngum almennt í landinu. Hvar er samgönguáætlunin? Hversu lengi á að bíða eftir samgönguáætlun? Það bólar ekkert á henni. Er hún ekki eitt af þeim verkfærum sem við þurfum til að byggja upp innviðina?

Í Kastljósinu í gær vísaði hæstv. ráðherra bara á aðra ráðherra þegar hann var spurður út í ýmis verkefni. Ráðherra ferðamála vísaði á fjármálaráðherra varðandi gjaldtöku af ferðamönnum. Varðandi svæðið í kringum Gullfoss var vísað á umhverfisráðherra. Síðan var vísað á einkaaðila varðandi til dæmis Reynisfjöru og Geysi.

Er þetta í lagi? Það er algjörlega óboðlegt að ríkisstjórn og ráðherra ferðamála sem hefur verið við völd í þrjú ár skuli ekki enn vera búin að koma sér niður á það hvernig eigi að rukka ferðamenn vegna innviðauppbyggingar og gjaldtöku af þeim og nota það fé til að byggja upp góða innviði í landinu. Það er ekki enn komin niðurstaða um hvernig eigi að vinna með ferðaþjónustunni sjálfri og sveitarfélögum í landinu að innviðauppbyggingu. Þessar afsakanir eru ekki boðlegar hjá hæstv. ráðherra ferðamála þremur árum eftir að hann tók við því embætti. Það eina sem hægt var að státa sig af í þessu viðtali var Stjórnstöð ferðamála, enn ein (Forseti hringir.) stofnunin sem enginn veit hvaða verkefni á að hafa. Það er ekki hægt að moka endalaust inn ferðamönnum án þess að landið láti á sjá og ímynd þess.


Efnisorð er vísa í ræðuna