145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Nýliðinn febrúar var sá heitasti sem um getur frá því veðurmælingar hófust og var fimmti mánuðurinn í röð þar sem slegin voru hitamet. Þessar tölur eiga við um jörðina alla. Ef aðeins er horft til norðurhvelsins er hlýnun enn meiri. Sérfræðingur segir að þetta séu að öllum líkindum mestu hlýindi sem verið hafa á þessum slóðum síðustu þúsund árin. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru staðreynd og ég held að enginn deili um það lengur, alla vega er fólk ekki mikið að segja það upphátt. Þetta er svo grafalvarlegt að við getum einfaldlega ekki ýtt þessum vanda á undan okkur.

Það er mjög margt sem hver og einn getur gert og sem við getum gert sem þjóð, að ekki sé nú talað um alþjóðasamfélagið, en snýst kannski fyrst og fremst um að hver og einn líti í eigin barm. Eitt af því sem ég gæti nefnt er til dæmis að sóa minni mat. Við eigum í rauninni bara ekkert að vera að sóa mat.

Annað sem hefur verið svolítið í umræðunni eru plastflöskur. Hér á Íslandi erum við jafnvel að selja vatn í plastflöskum og drekka vatn úr plastflöskum. Við erum með hreint og gott vatn úti um allt land, beint úr krananum. Svo eru brögð að því líka að verið sé að selja saklausum ferðamönnum vatn í flöskum á þeirri forsendu að vatnið hérna sé ekki nógu gott. Mér finnst mjög mikilvægt að við komum þeim upplýsingum skýrt og skilmerkilega til okkar gesta sem eru orðnir fjölmargir að hér drekkum við bara vatn úr krananum. Ég get jafnvel séð viðskiptatækifæri í þessu. Ef ég væri ekki á þingi mundi ég hanna einhverja mjög flotta flösku sem mundi halda heitu og köldu sem ferðamenn mundu kaupa við komuna til landsins og vera með á sér í ferðinni og fylla á hana hér og þar. Mér finnst líka að við eigum að skoða það þegar við erum á fundum og ráðstefnum að vera ekki alltaf með þessar vatnsflöskur (Forseti hringir.) á borðum heldur eigum við að vera með könnur og glös. Þetta eru kannski ekki stór atriði en mjög einföld og eitthvað sem við getum byrjað á strax í dag.


Efnisorð er vísa í ræðuna