145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það virðist vera orðið sjálfstætt og æðisérstakt vandamál að hæstv. forsætisráðherra virðist vera kominn með „fótósjopp“ í tölvuna sína og virðist verja dálítið miklum tíma í að hanna upp á eigin spýtur alls konar byggingar og hús og reyna að selja okkur hinum það að þetta séu skynsamlegar teikningar og skynsamleg skipulagning. Hæstv. forsætisráðherra er þegar búinn að kynna pælingar sínar af þessu tagi um spítalabyggingar í Efstaleiti og núna nýlega spítalabyggingar á Vífilsstöðum. Ég er líka með „fótósjopp“ í minni tölvu og get vel brokkað hér fram með alls konar teikningar þar sem ég lýsi því yfir að skynsamlegt væri að byggingarnar væru á Bessastaðatúninu, í Elliðaárdal, í Hvassahrauni eða hvar sem er. Það er ekkert mál — en ég kem hér upp til að vekja athygli á því að blessunarlega störfum við ekki svona í pólitík. Við tökum ekki veigamiklar ákvarðanir svona í pólitík.

Í þessu máli er búið að fara yfir það í 15 ár hvar spítalinn á að vera. Það er búið að gefa út að minnsta kosti fjórar mjög vandaðar greiningar á því hvar spítalinn verði best byggður. Í öllum þeim skýrslum hafa komið þær niðurstöður út frá fjölmörgum þáttum að spítalinn verði best hafður og byggður upp við Hringbraut. Og nú verða stjórnmálamenn og aðrir að láta af öllum hvötum sínum til að vera „besservisserar“ í þessu ferli og einfaldlega viðurkenna að greiningarnar hafa farið fram vegna þess að hagsmunamálið er stórt. Það ríkir neyðarástand í húsnæðismálum spítalans. Það þarf að drífa í þessu. Nú þurfum við að hætta að draga þetta ferli í efa og hefja, eins (Forseti hringir.) og raunar er hafið, byggingu nýs spítala við Hringbraut og svo koma því í kring að hæstv. forsætisráðherra fái annað forrit í tölvuna sína.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna