145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Forseti. Það vakti að vonum gríðarmikla athygli þegar lögreglan upplýsti um mansalið í Vík fyrir skömmu. Nú er komið í ljós og Kastljós greindi frá því í gær að íslenska ríkið og kerfið í kringum þessi mál gerði vont verra í allri málsmeðferð því að fórnarlömb mansalsins þurftu frá að hverfa aftur heim til yfirboðara og kvalara sinna því að ráðuneytið og allt stoðkerfið hérna brást algjörlega. Þetta er svo ömurlegt að ég næ ekki utan um þetta. Hvernig getum við brugðist svona fólki? Hvernig getum við með afskiptaleysi og seinagangi sent það aftur í þrældóm? Ég kalla eftir ábyrgð í þessu máli og ég vil fá að vita hver innan framkvæmdarvaldsins ætlar að axla hana.

En ég kem hérna upp til að fjalla um störf þingsins. Á dagskrá er þingsályktunartillaga frá iðnaðarráðherra um stefnu í nýfjárfestingum. Við í Bjartri framtíð lýsum miklum vonbrigðum með hana. Fyrir það fyrsta er hún óljós og óskýr. Hún leggur ekki til markmið og leiðir að settum markmiðum. Umsagnaraðilar skilja hana mjög ólíkt en meiri hlutinn sem er skipaður öllum gömlu flokkunum, Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Samfylkingunni og VG, leggur sinn skilning í stefnuna sem er sá að hér beri að styðja við orkufrekan iðnað umfram annan, það eigi að ívilna þannig fyrirtækjum sérstaklega umfram önnur fyrirtæki. Þessir flokkar leggja lykkju á leið sína til að sjá svo til að stefnan nái ekki yfir landið allt. Þeir undanskilja höfuðborgarsvæðið með öllu, það er eina svæðið sem á ekki að vera í þessari stefnu um nýfjárfestingar.

Við í Bjartri framtíð leggjum áherslu á að það á að styrkja allt umhverfi til nýfjárfestinga en það á að gera með almennum leiðum. Það á ekki að ívilna sumum en ekki öðrum. Ívilnanir eru þannig að (Forseti hringir.) það er alltaf einhver annar sem borgar og það eru önnur fyrirtæki og skattgreiðendur.


Efnisorð er vísa í ræðuna