145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

svar við fyrirspurn.

[14:07]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég neyðist til að kveðja mér hljóðs undir þessum lið, fundarstjórn forseta, til að gera mjög alvarlegar athugasemdir við svar hæstv. fjármálaráðherra við 12 spurningum mínum í fyrirspurn til skriflegs svars sem ég lagði fram 26. janúar sl. sem fjallaði um söluferli á eignarhlut Landsbankans í Borgun. Meðal annars spurði ég út í ákvarðanir stjórnar Landsbankans. Síðan gerist það rétt fyrir lok þingfundar í gær að dreift var svari sem mér finnst algjörlega óboðlegt og fyrir neðan allar hellur. Eftir þennan langa tíma og frest ráðuneytisins er svarið sett upp með spurningunum mínum 12, nokkrum línum um lög varðandi Bankasýslu og fleira, síðan fæ ég tvö ljósrit, annars vegar fylgiskjal I um eitthvert bréf Bankasýslu til fjármála- og efnahagsráðherra og svo er hitt ljósritið (Forseti hringir.) nokkrar síður um Landsbankann.

Virðulegi forseti. Ég verð að gera mjög alvarlegar athugasemdir við þetta og beini því til forseta (Forseti hringir.) að réttur minn sem þingmanns, bæði samkvæmt stjórnarskrá og þingsköpum, verði virtur og þetta svar eða ímyndaða svar verði sent (Forseti hringir.) til fjármálaráðherra og þess krafist að það komi svar við spurningum mínum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)