145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

svar við fyrirspurn.

[14:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Í hugum almennings snýst Borgunarmálið um hvort þar sé á ferðinni gróft spillingarmál og þar er um að ræða ríka fjárhagslega hagsmuni ríkisins. Hv. þm. Kristján L. Möller ber upp 12 spurningar til fjármálaráðherra. Fjármálaráðherra svarar bréfum sem varða sannarlega málið en svarar ekki spurningunum með beinum hætti og varar svo við því að hv. þingmaður fari að láta þetta snúast um sjálfan sig eða krefjast svara við akkúrat þessum spurningum. Það er það sem fyrirspurnir til ráðherra ganga út á, herra forseti. Herra forseti á að gæta þess að þeim sé svarað en ekki hent í okkur efni sem þessu. Hv. þingmaður spurði meðal annars: Hvar og hvenær voru eignarhlutir Landsbankans í Borgun hf. og Valitor hf. auglýstir til sölu? (Forseti hringir.) Það getur ekki verið flókið að svara svo beinni spurningu auk 11 annarra.