145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

svar við fyrirspurn.

[14:25]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kýs að fyrirgefa hæstv. fjármálaráðherra þau orð sem hann segir hér, að ég eigi að hætta að láta þetta mál snúast um mig sjálfan eða að ég hafi í bræðiskasti ekki lesið svarið eða að við þingmenn í salnum skulum hætta þessu leikriti.

Ég geri það vegna þess að mér hefur fundist hæstv. fjármálaráðherra, ólíkt ýmsum öðrum ráðherrum, oft sinna þingskyldum sínum við okkur þingmenn, líka sem ráðherra. En ég kalla beinlínis eftir því frá forseta hvort ég geti ekki treyst því að þetta algjörlega ófullkomna svar verði sent til fjármálaráðherra til baka og óskað eftir því að hann svari fyrirspurnunum lið fyrir lið án þess að svara með tveimur ljósritum sem ég gat séð á veraldarvefnum í gær. Þetta er ekkert svar. Þetta er ekki boðlegt.

Að mér læðist (Forseti hringir.) sá grunur að hér sé verið að fela óþægileg svör við þessum spurningum. Ég minni líka á að spurning mín til munnlegs svars hefur heldur ekki komið fram og er enn frestað og nú eru komnar fimm vikur fram yfir frest. Ég óska eftir því, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að fá úrskurð um þetta áður en þessari umræðu lýkur. Ég mun ekki sætta mig við þetta svar.