145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fjármálafyrirtæki.

589. mál
[14:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að koma inn á þau atriði sem hv. þingmaður velti hér upp. Ég þakka góð orð um að löggjöfin sé til bóta fyrir fjármálakerfið. (ÖS: Þó það nú væri.)

Í fyrsta lagi var komið inn á innleiðingu á breyttu regluverki hvað viðvíkur eftirlitsstofnunum. Það er mál sem enn er í vinnslu, það hefur tekið langan tíma. Það hefur breyst úr því að vera skilyrðislaus krafa Evrópusambandsins um að við beygðum okkur undir eftirlitsstofnanir þess, sem við eigum enga aðild að, yfir í skilning á því að ekki sé það bara í andstöðu við stjórnarskrá EFTA-ríkjanna heldur brot á grundvallarþætti þess samstarfs sem stofnað var til með EES-samningnum, þ.e. tveggja stoða kerfinu. Samtalið hefur frá því að þetta var viðurkennt af Evrópusambandsins hálfu snúist um það hvernig við getum byggt eftirlitsþáttinn á tveggja stoða kerfi. Ég tel að þar séu lausnir sem við getum fellt okkur við komnar fram og er vongóður um að úr þessu leysist á komandi mánuðum.

Örstutt varðandi uppljóstrara. Það er mál sem við erum að vinna að í ráðuneytinu. Það hefur þó þurft að víkja fyrir öðrum stærri málum, en unnið er að því.

Ég tel varðandi vaxtamunarviðskiptin að óumflýjanlegt sé fyrir stjórnvöld að bregðast við þeirri hættu sem við stöndum frammi fyrir vegna möguleikans á vaxtamunarviðskiptum og það muni þurfa breytingu á lögum, reglum eftir atvikum, en ég ætla að láta það fylgja að þó að það komi til með að koma að gagni þá er ekki hægt að hafa væntingar um að það muni leysa þann vanda (Forseti hringir.) endilega með öllu. Það (Forseti hringir.) er hins vegar í mínum huga (Forseti hringir.) alveg nauðsynlegt að gera það sem hægt er.