145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fjármálafyrirtæki.

589. mál
[14:56]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil beina því til hæstv. fjármálaráðherra að hann láti sér ekki nægja að lúta bara að hv. þm. Birgi Ármannssyni til þess að fá upplýsingar um hvar það mál varðandi aðlögun að tveggja stoða kerfinu er statt vegna þess að við höfum miklu fyllri upplýsingar um það en hæstv. fjármálaráðherra virðist hafa í þessu svari og við höfum fengið þær í utanríkismálanefnd. Það er á góðu róli eins og hæstv. ráðherra sagði.

Ég fagna því hjá hæstv. ráðherra að hann segir það algjörlega skýrt að hann lítur svo á að vaxtamunarviðskiptin séu ógn við okkar fjárhagslegu framtíð. Með öðrum orðum, hann segir það alveg skýrt að breyta þarf lögum til þess að við getum spornað við þeim viðskiptum. Þau áttu að verulegu leyti upptökin að þeim vanda sem steyptist yfir okkur árið 2008. Það er algjörlega brýnt að við tökum á þeim málum. Það er ekki nóg að hæstv. ráðherra komi og segi að það þurfi að gera það sem þarf að gera. Við getum jú verið sammála um það. En þetta er að gerast núna. Samkvæmt síðustu fréttum hafa slík viðskipti aukist um, ja orðið að marki (Forseti hringir.) um 70–90 milljarðar. Á sama tíma er hæstv. ráðherra með aðstoð Seðlabankans að ráðast í að nudda út 230 milljörðum sem er afgangur af slíkum viðskiptum frá fyrri áratug. Vandamálið er til staðar, (Forseti hringir.) það er brýnt og við verðum að nálgast það í þessari umræðu.