145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fjármálafyrirtæki.

589. mál
[14:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég átti við í svari mínu var að ég tel að lög og reglur geti komið að gagni hér. Ég tel að við eigum að setja reglur að því marki sem þær koma til með að duga. Það er margt annað sem þarf líka að horfa til. Við getum til dæmis ekki gengið út frá því í framtíðinni að þrátt fyrir slíkar reglur muni þetta vandamál ekki horfa við okkur eða blasa við okkur ef við höfum vaxtamun á milli Íslands og annarra ríkja of ríkan. Það er ýmislegt hægt að gera til að koma vaxtastiginu á Íslandi niður. Ef menn haga sér með þeim hætti á Íslandi að vextir leita alltaf upp á við þá eru menn að kalla á þennan vanda. Þá breytir engu hvort menn hafa smíðað einhver tól og tæki til að eiga við hluta vandans. Menn eru ekki að fást við rót vandans, sem er of hátt vaxtastig. Þar kemur margt inn, sambandið og samtalið við vinnumarkaðinn, ábyrg ríkisfjármálastefna, o.s.frv. (Forseti hringir.) Það eru hlutir sem geta fært vaxtastigið á Íslandi niður og eitt og sér án reglna og nýrra laga tekið á þessum vanda.