145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fjármálafyrirtæki.

589. mál
[14:59]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsögu hans. Ég var raunar á svipuðum slóðum og hv. þingmaður á undan mér sem vildi ekki spyrja sérstaklega um uppljóstranirnar. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra sem sagði að unnið væri að því máli en ákveðin vinna eftir í því: Eru einhver sérstök álitamál uppi hvað varðar innleiðingu tilskipunarinnar, hvað varðar uppljóstranirnar? Eigum við von á því að við getum klárað þann þátt málsins á þessu þingi?

Hér kemur fram að reiknað sé með því að málið verði lagt fram fyrir lok þessa þings. Eru einhver sérstök álitamál uppi um það?

Í fyrsti áfanga í innleiðingu á Basel III gerði hv. efnahags- og viðskiptanefnd breytingar á bónusum sem þá voru til umræðu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það verði einhverjar frekari breytingar lagðar til á því í þessu frumvarpi, hvort unnið sé að því, eða hvort sú lausn sem Alþingi sammæltist um þar verði látin standa.

Í þriðja lagi. Það umræðuefni sem hér er rætt, þ.e. tveggja stoða kerfi, er áhugavert og við höfum fengið að fylgjast með hvernig stendur. Er ráðherra inni í því hver næstu skref í því máli eru á vettvangi Evrópusambandsins annars vegar og EFTA hins vegar? Er málið komið á þann stað að við getum farið að tímasetja hvenær einhver lausn liggur fyrir eða er enn verið að senda hugmyndir á milli aðila til að ná einhverri lokalausn?