145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fjármálafyrirtæki.

589. mál
[15:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er gott að heyra þessi tíðindi af tveggja stoða kerfinu. Þó að að sjálfsögðu hefði maður kosið að það hefði jafnvel getað gengið hraðar fyrir sig þá hefur öll sú þróun verið í rétta og jákvæða átt og því ber að fagna.

Mig langar að lokum að spyrja hæstv. ráðherra um mál sem varðar ekki beinlínis efnis þessa frumvarps. Ég hef spurt fulltrúa ráðuneytisins um skoðun á hugsanlegum aðskilnaði viðskipta- og fjárfestingarbanka, af því að hæstv. ráðherra nefndi bankamálin almennt. Við höfum fengið þau svör að málið hafi vissulega verið í skoðun í ráðuneytinu, við erum auðvitað líka með tillögu fyrir þinginu.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Er málið í raunverulegri skoðun í ráðuneytinu? Telur hæstv. ráðherra koma til greina að stíga þau skref sem hafa víða verið til mikillar umræðu bæði í Evrópu og vestan hafs?