145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fjármálafyrirtæki.

589. mál
[15:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er alveg gilt sjónarmið varðandi innlenda markaðinn, en það togast á við samræmingu á Evrópska efnahagssvæðinu og í sumum atvikum lágmarks- eða hámarkskröfur sem færðar eru fram í evrópska efnahagssamstarfinu um einstök atriði. Það sem ég mundi segja almennt um þetta er að mér finnst alveg sjálfsagt að menn hafi fjárhæðir, þegar það skiptir ekki máli, í krónum og það eigi að vera meginreglan. Þegar við bjóðum hins vegar heim hættunni á því að innleiðing á evrópureglum geti stangast á við skuldbindingar út af gengissveiflum og það kalli síðan aftur á lagabreytingu til að uppfæra fjárhæðina þá finnst mér við vera að gera okkur þetta fullerfitt.

Ef við setjum okkur í þá stöðu að setja inn krónutölur þar sem um einhverjar hámarks- eða lágmarksfjárhæðir er að ræða en höfum undirgengist að innleiða einhverja tiltekna viðmiðun í evrum, þá getum við lent í þeirri aðstöðu að þurfa að koma hingað inn í þingið með lagabreytingar til að uppfæra fjárhæðirnar jafnvel þótt mest lítið hafi breyst, eins og hv. þingmaður er einmitt að segja, í okkar íslenska veruleika. Það er þá bara einhver alþjóðleg skuldbinding sem togar í hina áttina. Mér finnst þetta vera atriði sem við þurfum að finna praktíska lausn á án þess að fórna efnislega markmiðinu sem er réttilega tilgreint hér, þ.e. fjármálalegur stöðugleiki.