145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fjármálafyrirtæki.

589. mál
[15:10]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Forseti. Ég vil bara þakka fyrir þessi orð og heyri að hæstv. ráðherra er að velta þessu fyrir sér eins og ég. Auðvitað er kannski engin góð leið í þessu, en í fyrsta lagi er það góð leið að innleiða aldrei erlenda mynt sem viðmiðun inn í íslenskan lagatexta nema það sé algjörlega skylt og óhjákvæmilegt. Það hlýtur að vera fyrsta regla.

Ég er ekki viss um að það sé krafa í þessum tilskipunum að þetta sé innleitt með þessum hætti. Ég gæti vel trúað að þeir hafi fullan skilning á því að hér er lögeyririnn króna enn sem komið er. Sömuleiðis er sænsk króna í Svíþjóð og þeir þurfa að taka tillit til þess. Hér getur það valdið ýmsum óþægindum fyrir þá sem eiga að fylgja lögunum ef ekki er alveg ljóst hvað er í gildi af þessu af því að breyting hefur orðið í Evrópu á gengi evrunnar, sem er okkur óviðkomandi innan þessa hagsvæðis sem er að nota krónuna.

Ég held að það væri þá lítið ómak fyrir okkur, þessa 63 starfsmenn sem hér erum, að setja lög árlega og fara yfir þær tölur í lögunum sem hugsanlega þyrfti (Forseti hringir.) nauðsynlega að uppfæra. Ég held að það væri sjálfsögð þjónusta við það fólk sem þarf að fara eftir þessu.