145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

afglæpavæðing vörslu neysluskammta af fíkniefnum.

[15:13]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Síðla hausts eða snemma vetrar, hvort heldur maður tekur til, héldu samtökin Snarrótin, samtök um borgaraleg réttindi, stórmerka ráðstefnu undir heitinu „Krefjumst friðar í fíknistríðinu“. Þar talaði fólk úr ýmsum áttum, lögreglumaður frá Baltimore sem nú er framkvæmdastjóri löggæslumanna gegn vímuefnabanni, samtaka þar, lögmaður sem vinnur með útigangsfólki í Kaupmannahöfn, ráðgjafi alþjóðanefndar um fíkniefnastefnu, sænskur félagsfræðingur sem hefur sérstaklega rannsakað hagi útigangsfólks, portúgalskur embættismaður úr portúgalska heilbrigðisráðuneytinu — en í Portúgal hefur fíkniefnaneysla verið afglæpavædd — og loks var þarna umdæmisstjóri vímuefnastefnu í Colorado þar sem kannabis hefur nú verið leyft. Þá vil ég taka fram að það er allt annað að leyfa fíkniefni eða afglæpavæða það að hafa fíkniefni til neyslu í fórum sínum.

Forvígismaður ráðstefnunnar, Pétur Þorsteinsson, lýsti þessu svo fyrir mér að við fengjum að heyra um ástandið eins og það er, um fræðin og rannsóknir á vandamálinu, loks um framtíðina og hvað þeir framsæknu í þessum efnum vildu reyna til að leysa þetta mikla þjóðfélagsvandamál. Öllu þessu fólki sem þekkir þessi hluti gjörla bar saman um að þær aðferðir sem almennt eru notaðar í stríðinu við fíkniefnavandann skili engum árangri og bitni á þeim sem minnst mega sín, þ.e. þeim sem eiga við fíkniefnavanda að stríða. Á meðan athyglinni er beint að neytendunum sleppa glæpamennirnir. Glæpamennirnir eru þeir sem stýra dreifingunni og flutningi á milli landa. Þeir hagnast bæði á þeim sem ánetjast fíkniefnum og einnig á hinum sem þeir gera út til að smygla efnunum heimshluta og landa á milli.

Neðanjarðarhagkerfið hér á landi sem fylgir þessari ólöglegu starfsemi er sagt stórt og þar eru nefndar fjárhæðir allt upp í 10 milljarða, jafnvel hærri. Í mínum huga skipta fjárhæðirnar þó ekki meginmáli. Það sem skiptir máli er að þessar aðferðir skila engum eða litlum árangri og geta þess utan valdið skaða. Auk þess eru beinlínis brotin mannréttindi á fíklum, því fólki sem verst er farið. Það kom glögglega í ljós í máli sérfræðinganna á ráðstefnunni sem ég minntist á í upphafi máls míns.

Í Hollandi hefur sala kannabisefna verið háð litlum takmörkunum um margra ára skeið en neysla þeirra þar er minni en í mörgum Evrópulöndum og neysla sterkari efna er minni þar en í öðrum Evrópusambandslöndum. Árið 2001 ákváðu stjórnvöld í Portúgal að afnema refsingu fyrir vörslu neysluskammta af kannabis og kókaíni. Hver hefur árangurinn verið? Neysla efnanna hefur ekki aukist, öðru nær, hún hefur dregist saman. Könnun sem gerð var árið 2006, þ.e. fimm árum eftir breytinguna, sýndi að neysla portúgalskra ungmenna á aldrinum 15–19 ára dróst saman á efnum eins og kannabis, kókaíni, heróíni, e-töflum og ofskynjunarsveppum.

Nú er svo komið að í Portúgal eru 50% og í sumum tilfellum 75% minni líkur á því að fólk á aldrinum 15–64 ára neyti kannabis en í flestum öðrum löndum Evrópusambandsins.

Á 143. þingi var samþykkt þingsályktunartillaga frá hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, og henni var beint til heilbrigðisráðherra, um að stofna starfshóp sem átti að gera úttekt á gildandi lagaumhverfi, líta til löggjafar annarra ríkja þar sem horfið hefur verið frá refsistefnu tengdri neyslu ólöglegra vímuefna og loks að skapa heildstæða stefnu sem leggi höfuðáherslu á mannúðlega nálgun og vernd mannréttinda.

En ég vil beina sjónum mínum sérstaklega að þætti innanríkisráðuneytisins í þessum efnum og spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort hún deili skoðun minni um að við ættum að huga að því að hætta að hundelta fólk sem er beinlínis veikt og snúa okkur að því að hjálpa þeim sem verst eru farnir til að geta lifað sem skástu lífi í þeim aðstæðum sem þeir eru í. Í framhaldi af því spyr ég hvort einhver vinna sé unnin á vegum ráðuneytis hennar til að gera breytingar í þá veru.