145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

afglæpavæðing vörslu neysluskammta af fíkniefnum.

[15:26]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég fagna umræðunni. Ég er nokkuð á öðru máli en hv. þingmaður sem hér talaði á undan mér um þessi mál. Ég hef lýst því yfir í ræðustól í orðaskiptum við hæstv. innanríkisráðherra að mér mundi finnast skynsamlegt að lögleiða kannabisneyslu, fara þar að fordæmi margra fylkja í Bandaríkjunum og margra ríkja, ég horfi líka til þróunar í Kanada undanfarið og þróunar í Portúgal eins og framsögumaður málsins nefndi. Ég er því augljóslega mjög jákvæður gagnvart því að afglæpavæða neysluskammta af vörslu neysluskammta á fíkniefnum.

Mér finnst mjög mikilvægt að taka það skýrt fram að þegar maður er þessarar skoðunar þá er maður ekki að mælast til þess að rosalega margir fari að neyta fíkniefna eða að draga úr því eða gera lítið úr því hversu skaðleg fíkniefni eru. Mér finnst bara og mér sýnist margir málsmetandi aðilar í þessum málum í heiminum vera komnir á þá skoðun að það sé algjörlega röng stefna að hafa þessa neyslu í svörtustu afkimum samfélagsins, háða einhverjum lögmálum glæpaheima þar sem er svart hagkerfi og þrífst alls konar viðbjóður. Fyrst og fremst er hér fólk að verða sjálfu sér að skaða og það eru miklir harmleikir. Við eigum að reyna að fá þessi mál sem mest upp á yfirborðið og gera þau að heilbrigðismáli, höndla þau þannig. Mér sýnist að oft sé ákveðin undirliggjandi grunnvilla í þessari nálgun, að þegar eitthvað er bannað samkvæmt lögum er eins og fólk telji að það eigi sér þá ekki stað. Við bönnum vissulega neyslu fíkniefna, en neyslan á sér stað (Forseti hringir.) og hún er undir engu eftirliti og hún er skelfilegt vandamál. Ég held að við mundum höndla það miklu betur með því að horfast í augu við það og gera um það lagaumgjörð.