145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

afglæpavæðing vörslu neysluskammta af fíkniefnum.

[15:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þyrfti klukkutíma til að tjá mig fyllilega um þessi mál og það er ekki víst að það mundi duga.

Að mínu mati eigum við að heimila neyslu allra vímuefna. Ekki vegna þess að þau eru skaðlaus heldur vegna þess að þau eru hættuleg. Ég held að það sé ótímabært að ræða dreifingarfyrirkomulagið af nokkurri dýpt fyrr en það er komið á hreint, þótt það sé sjálfsagt að vekja máls á þeim tilraunum sem eiga sér stað út um allan heim. Það er miklu mikilvægara að heimila neysluna fyrst vegna þess að löggjöfin er hvað ósanngjörnust þegar kemur að því hvernig farið er með neytendur.

Dópstríðið eins og það er stundum kallað er kallað dópstríð vegna þess að bandarísk yfirvöld lýstu því þannig á sínum tíma og þau hafa beitt sér sérstaklega fyrir því að mjög hart sé tekið á vímuefnamálum alls staðar í heiminum.

Íslensk yfirvöld hafa ekki kallað þetta stríð að mér vitandi en sama viðhorf endurspeglast hins vegar í löggjöf landsins. Vímuefnaneytendur verða fyrir aðkasti og fordómum alls samfélagsins, hvort sem þeir eiga við vímuefnavandamál að stríða eða ekki, frá almenningi, frá fjölmiðlum, frá heilbrigðiskerfinu, frá lögreglu og bara öllu samfélaginu í heild sinni.

Það sem gerist þegar vandamálið er nálgast með stríðshugarfari er að maður leyfir sér leiðir sem maður mundi annars aldrei leyfa sér. Stríð eru þess eðlis að fólk gengur mun lengra en gengur upp í siðmenntuðu samfélagi.

Það eru vímuefnamálin, það eru alltaf vímuefnamálin sem eru langfyrirferðarmest þegar kemur að inngripum inn í frelsi og réttindi borgaranna. Það eru vímuefnamál sem gera það að verkum að hleranir eru jafn tíðar og sjálfsagðar og raun ber vitni. Það er vegna vímuefnamála að leitir á fólki og í tjöldum þess og híbýlum þykja svo sjálfsagðar sem raun ber vitni.

Nýlega var lagt fram frumvarp um spilahallir þar sem sambærilegir fordómar koma fram. Ég er ekki að álasa hv. framsögumanni, þessir fordómar eru mjög útbreiddir alls staðar í samfélaginu.

Ég hef nokkrar sekúndur til að ljúka máli mínu, virðulegi forseti. En fólk fer á sakaskrá fyrir neyslubrot. Það fær mjög háar sektir. Það sætir leitum og áreiti af hálfu yfirvalda. Þetta eru vandamál sem við bjuggum til hér á Alþingi og það er okkar að leysa þau.