145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

afglæpavæðing vörslu neysluskammta af fíkniefnum.

[15:35]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Það er mikilvægt að við þorum að taka umræðuna og reynum að hafa hana sem málefnalegasta þegar við erum með svona viðkvæmt og umdeilt mál í höndunum.

Það sem við eigum að hafa fyrst og fremst í huga er náttúrlega skaðaminnkun af þessum efnum, fíkniefnum. Því miður er staðreyndin sú að okkur hefur ekki tekist vel í skaðaminnkun heldur höfum við frekar með því kerfi sem við höfum og svokallaðri refsistefnu sem við höfum farið eftir, verið að stækka vandann. Við erum farin að heyra núna um týnda fólkið sem er falið vegna fordóma og vegna þess hvernig kerfið útilokar það. Við getum ekki nálgast þetta fólk til að aðstoða það. Þessu þurfum við að breyta. Samfélagið þarf að byggja aftur upp traust hjá þessu fólki svo það þori að koma til okkar og leita sér aðstoðar og annað slíkt. Við erum ekki bara að tala um fíklana, við erum líka að tala um ungt fólk sem fer kannski af slysni inn í þetta. Við megum ekki festa það þar með því að útiloka það frá vinnu og öðru sem eru kannski bestu útgönguleiðirnar úr þessu.

Þess vegna er þetta mál mjög mikilvægt. Og ég vil biðja ykkur að hugsa aðeins um eitt, því ég tel þetta góða byrjun að tala um neysluskammtana: Hvað ef við mundum lögleiða fíkniefni, hverjir yrðu mest á móti því? Hverjir eru mestu andstæðingar þess að leyfa fíkniefni? Það eru dílerarnir sjálfir, sölumennirnir. Þá er allur fjárgróðinn þeirra farinn, þá yrði markaðssetningin minni og annað slíkt. Þannig að við þurfum aðeins að hugsa þetta, velta fyrir okkur hverjir hafi hagsmuna að gæta í þessu. Það er ekki að ástæðulausu sem Sameinuðu þjóðirnar eru farnar að taka þetta upp og ræða þetta. Ég held að það sé mikilvægt að við byrjum kannski smátt hér en fylgjum svo Sameinuðu þjóðunum. Það er örugglega ekki gott ef eitt land (Forseti hringir.) stekkur til og fer að lögleiða allt ef nágrannaríkin gera það ekki. Þá getum við verið að færa vandann til. Það þarf að taka heildstætt á þessu máli og við skulum gera það.