145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

afglæpavæðing vörslu neysluskammta af fíkniefnum.

[15:38]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann sem talaði hér á undan mér að ég er ekki fylgjandi lögleiðingu fíkniefna. Og ég er ekki díler þrátt fyrir það. Þetta er bara mín skoðun og álit mitt sem ég byggi á minni lífsreynslu, eins og ég hef kynnt mér þessi mál. Ég er andsnúinn lögleiðingu fíkniefna í grunninn.

Umræðuefnið hérna er afglæpavæðing neysluskammta, þ.e. að fíklum sé ekki refsað fyrir að nota sjálfir fíkniefni til að komast í gegnum daginn. Það er í rauninni umræðuefnið, þ.e. hvernig við færum til refsirammann og hvert við færum til refsirammann. Í stað þess að gera það refsivert tökum við á því með öðrum hætti, þ.e. fyrst og fremst frá sjónarhorni mannréttinda og heilsu og refsum ekki fólki fyrir að vera veikt af fíkn, hvort sem það er af eiturlyfjum eða áfengi eða öðru, það beri ekki að refsa fólki fyrir að vera sjúkt af neyslu.

Það þýðir ekki, eins og hér hefur reyndar mikið verið komið inn á í umræðunni, að með því að færa til refsirammann færumst við í raun og veru nær því að lögleiða fíkniefni. Það er ekki tekið fram í þessari umræðu um hvers konar fíkniefni við erum að ræða um. Erum við að tala um öll fíkniefni? Eru einhver þar undanskilin eða ekki? En umræðan færist yfir í það hvort rétt sé að lögleiða öll fíkniefni, þá sé auðveldara að taka á vandanum. Vandinn er veikt fólk, ekki satt? Hugmyndin og umræðan hér (Forseti hringir.) snýst um það hvort við eigum að refsa veiku fólki. Ég vil það ekki. Ég er andsnúinn því. Við eigum að sinna veiku fólki með þeim ráðum sem við kunnum og taka á þeim málum út frá mannréttindasjónarmiðum og heilsufarssjónarmiðum,(Forseti hringir.) en ég er andsnúinn lögleiðingu fíkniefna þrátt fyrir það.