145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

afglæpavæðing vörslu neysluskammta af fíkniefnum.

[15:43]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir að hefja þessa umræðu um afglæpavæðingu vörslu neysluskammta af fíkniefnum.

Mér finnst við oft hér vera að kljást við orðin og orðalagið og jafnframt í umræðunni. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að fara yfir refsilöggjöfina vegna þess að afar mikilvægt er og augljóst að það þarf að afmarka þetta viðfangsefni lagalega, áður en við getum farið að fullyrða um stefnuna, og á sama tíma að átta okkur á því hver raunverulegur vandi er.

Almennt get ég sagt um þetta mál að ég er fremur fylgjandi meðferðarúrræðum, forvörnum og fræðslu og því að aðstoða fólk í vanda en að stefnan birtist í refsibundnum hótunum í löggjöf. Við þurfum auðvitað að haga lögunum og refsiákvæðum laganna þannig að tryggt sé að þeir sem eru raunverulega í vanda og eru sjúkir fái meðferð í sínum málum og áherslan sé ekki að refsa þeim til betrunar heldur að aðstoða þá.

Við verðum á sama tíma að huga að þeim skilaboðum sem við erum að gefa. Þegar ég tala um það að kljást við orðin þá er hér ekki verið að tala um að lögleiða eitt eða neitt heldur það hvernig við aðstoðum fólk í vanda og að við áttum okkur um leið á því hver vandinn er, hver stefnan er og hvernig hún birtist í löggjöfinni. Ég held að það sé afar mikilvægt að við áttum okkur á því.

Ég fagna því og bíð spenntur eftir því að sjá niðurstöður starfshóps sem hæstv. ráðherra kom inn á.