145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:00]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á aðstæðum þeirra fanga sem afplána í fangelsinu á Akureyri og eru af Norðurlandi. Ég hef rætt það áður að til þess að mega afplána dóm með rafrænu eftirliti er gerð sú krafa að fangar fari á áfangaheimili sem Fangelsismálastofnun samþykkir, en slíkt áfangaheimili er bara í Reykjavík, þ.e. Vernd.

Fangar afplána þá frekar allan dóminn í öryggisfangelsinu á Akureyri til þess að vera í námunda við fjölskyldu sína og fara svo þaðan á rafrænt eftirlit og hafa þá í rauninni ekki fengið það millistig að afplána á heimili eins og Vernd þar sem hægt er að stunda vinnu eða nám að uppfylltum ákveðnum skilyrðum; mætingu í kvöldmat og þar fram eftir götunum.

Þó segir í greinargerðinni með 33. gr. þar sem fjallað er um þetta úrræði og að það sé mikilvægt þá segir hér orðrétt, með leyfi forseta:

„Markmið þessa úrræðis er meðal annars að þeim gefist kostur á því að aðlagast samfélaginu smám saman áður en til reynslulausnar kemur. Er þetta afar mikilvægt fyrir fanga þar sem þeir geta stundað vinnu eða nám og verið í nánum tengslum við fjölskyldu og vini meðan á dvölinni þar stendur.“

Þá fær maður sterklega á tilfinninguna að frumvarpið sé samið í Reykjavík vegna þess að það eru auðvitað fangelsi á Akureyri og fangar sem búa á Norðurlandi. Þeir eru þá að sjálfsögðu ekki í nánum tengslum við fjölskyldu og vini á meðan þeir afplána, eða á meðan þeir eru á Vernd.

Ég get ekki séð að allir séu jafnir fyrir lögum hvað þetta varðar. Fangar eiga að vera jafnir fyrir lögum eins og aðrir. Ég hef áhyggjur af því að ekki sé hægt að sníða einhver úrræði ef fangi uppfyllir öll hin skilyrðin í 33. gr.

Ég vil vekja athygli á þessu og vona að menn finni einhverja lausn.