145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

almenn hegningarlög.

401. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar í þessu máli. Að meginstefnu til má segja að hér sé um fjögur atriði að ræða sem verið er að breyta í löggjöfinni.

Í fyrsta lagi er verið að leggja til breytingar á almennum hegningarlögum og lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir, um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, nr. 25/1975, svo að fullgilda megi samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.

Í öðru lagi er lagt til að bætt verði í XXIII. kafla almennra hegningarlaga sérstöku ákvæði um ofbeldi í nánum samböndum og heimilisofbeldi og sú tegund ofbeldis sé þar með gerð að sérstöku broti.

Í þriðja lagi er bætt við í nauðungarákvæði í 225. gr. nýrri málsgrein um þvingaða hjúskaparstofnun, sem geri það sérstaklega refsivert að neyða annan mann til að ganga í hjúskap eða gangast undir aðra sambærilega vígslu, þó að hún hafi ekki gildi að lögum.

Að lokum felur frumvarpið í sér breytingar á lögsögu- og fyrningarreglum laganna.

Stærsta breytingin, og sú sem við fjölluðum kannski mest um í vinnu nefndarinnar, varðar 4. gr. frumvarpsins eða hina nýju 218. gr. b í hegningarlögunum um heimilisofbeldi. Nú hefur allsherjarnefnd á þessu kjörtímabili margoft fjallað um heimilisofbeldi og þörfina á því að setja sérstakt ákvæði í almenn hegningarlög varðandi það. Við höfum kallað eftir því að ráðuneytið setti af stað vinnu til að smíða slíkt ákvæði og ég verð að lýsa yfir sérstakri ánægju með að við séum nú komin á þann stað að þetta frumvarp er komið til 2. umr. og verður vonandi gert að lögum seinna á þessum þingvetri. Það er mjög mikilvægt.

Meginefni þessa nýja ákvæðis er það að ofbeldi í nánum samböndum verður sérstaklega lýst refsivert. Við fjölluðum talsvert um það hverjir eiga að njóta réttarverndar samkvæmt ákvæðinu. En í greinargerðinni segir að „sambúðarmaki í skilningi ákvæðisins verður ekki túlkað svo þröngt að nauðsynlegt sé að sambúð hafi formlega verið skráð hjá yfirvöldum svo ákvæðið komi til skoðunar“. Það kemur jafnframt fram að réttarvernd ákvæðisins nái einnig til annarra sem búa með geranda á heimili eða eru í hans umsjá.

Við ræddum þetta nokkuð á fundum nefndarinnar og fram komu ábendingar og vangaveltur um það hvort þetta ákvæði næði til aðila sem væru í parasambandi sem hefði staðið í einhvern tíma, eins og til dæmis er fjallað um í dómi Hæstaréttar nr. 312/2015. Við áréttum það í nefndaráliti okkar, og það er mjög mikilvægt, að við beitingu ákvæðisins sé rétt að líta til tengsla þolanda og geranda og þess rofs á trúnaðarsambandi og trausti þeirra á milli sem í háttseminni felst. Hins vegar sé ljóst að ávallt munu koma upp takmörkuð tilvik og geta dómstólar í einhverjum tilvikum þurft að meta það hvort samband aðila sé svo náið að það teljist falla undir þau sjónarmið sem að baki búa.

Í 34. gr. Istanbúl-samningsins er ákvæði sem lýtur að umsáturseinelti. Við fengum til okkar gesti sérstaklega til að fjalla um það hugtak og hvað það þýðir. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að ekki var talin þörf, á grundvelli Istanbúl-samningsins, á að lögfesta sérstakt ákvæði um það í almenn hegningarlög, þ.e. samningurinn sjálfur kallaði ekki á sérstakar breytingar á íslenskri löggjöf. En það komu umsagnir til okkar þar sem bent var á að gildandi lög um nálgunarbann og brottvísun af heimili hefðu ekki náð því markmiði að tryggja öryggi þolenda heimilisofbeldis og umsáturseineltis. Það skýrðist meðal annars af tregðu dómstóla til að staðfesta ákvarðanir lögreglustjóra um nálgunarbann í ákveðnum tilvikum eða vegna þess að sú löggjöf gengi ekki nægilega langt. Við ræddum þetta talsvert vegna þess að við vorum ekki sammála því að þetta væri brot, þ.e. að íslensk löggjöf verndaði þolendur nægilega eða á fullnægjandi hátt. Það er mat okkar í nefndinni að rétt sé að setja sérstakt lagaákvæði um umsáturseinelti í íslenska refsilöggjöf en jafnframt sé mikilvægt að draga ekki úr þeirri réttarvernd sem til staðar er. Það eru önnur ákvæði í almennum hegningarlögum sem grípa ákveðna þætti sem hér er fjallað um en þeir eru ekki fullnægjandi.

Það var ánægjulegt að það kom fram á fundum nefndarinnar að til standi að hefja slíka vinnu af hálfu ráðuneytisins, að smíða slíkt ákvæði, og við vonumst til þess að sú vinna skili sér til Alþingis í formi frumvarps í haust.

Fram komu ábendingar í nefndinni um að taka þyrfti afstöðu til þess hvar ákæruvaldið vegna brota á þessari nýju 218. gr. b í hegningarlögunum lægi. Við teljum eðlilegt að lögreglustjóri fari að meginstefnu til með ákæruvald í málum sem þessum og leggjum til breytingu þar að lútandi.

Ég vil að lokum þakka nefndinni fyrir gott starf. Nefndin skrifar öll undir þetta nefndarálit. Ég vonast svo sannarlega til að við sjáum frumvarpið hljóta samþykki hér í þinginu enda gríðarlega mikilvægt og nokkurra ára baráttumál hjá allsherjar- og menntamálanefnd að fá frumvarpið fram, en það var að sjálfsögðu unnið í góðri sátt og af fullum krafti í innanríkisráðuneytinu.