145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

uppbygging innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

133. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Haraldur Einarsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar um frumvarp til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

Mig langar að lesa upp, áður en ég hef lestur við nefndarálit, markmiðsgrein laganna, en markmið laganna er að móta og samræma stefnu um uppbyggingu, rekstur og viðhald innviða í þágu náttúruverndar og til verndar menningarsögulegum minjum vegna álags af völdum ferðamennsku og útivistar. Það skal gert með stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára og þriggja ára verkefnaáætlun sem er hluti af og innan ramma tólf ára áætlunarinnar.

Nefndin hefur fengið fjölmarga góða gesti á sinn fund og ég ætla ekki að telja þá alla upp hér. Einnig barst nefndinni fjöldi umsagna. Málið er endurflutt frá síðasta þingi og tekið hefur verið tillit til breytingartillagna frá nefndinni sem hún lagði til við afgreiðslu á síðasta þingi, auk nokkurra annarra breytinga. Í almennum athugasemdum við frumvarpið er vikið nánar að þeim breytingum sem gerðar voru á frumvarpinu sem eru í grundvallaratriðum tvenns konar.

Annars vegar verður þriggja ára verkefnaáætlun ekki í formi þingsályktunar heldur unnin af ráðherra í samráði við ráðherra ferðamála, þjóðlendumála og ráðherra menningarminjamála og kynnt fyrir umhverfis- og samgöngunefnd áður en hún öðlast gildi.

Hins vegar er um að ræða breytta samsetningu á verkefnisstjórn sem verður fámennari en lagt var til í fyrstu en jafnframt lögð til ráðgjafarnefnd þar sem aðilar frá opinberum stofnunum, félagasamtökum og öðrum hagsmunaaðilum munu koma að vinnu við framtíðarsýn málaflokksins og verða verkefnisstjórn til ráðgjafar og samráðs við undirbúning stefnumarkandi landsáætlunar til tólf ára.

Á því tæpa ári sem liðið er frá því að málið var til umfjöllunar í nefndinni hefur ferðamönnum enn fjölgað hér á landi og fyrirséð að sú þróun haldi áfram. Samkvæmt nýlegum tölum Ferðamálastofu voru ferðamenn um 30% fleiri árið 2015 en árið á undan. Rétt er að nefna að nýlegar spár Isavia, um fjölda ferðamanna árið 2016, munu verða miklu hærri eða allt að 40%. En þessi aukni ferðamannastraumur kallar á frekari uppbyggingu allra helstu innviða samfélagsins.

Auk ferðamannastaða og ferðamannaleiða, sem það frumvarp sem hér er til umfjöllunar tekur til, þarf að huga að uppbyggingu samgöngukerfisins sem gegnir lykilhlutverki í öryggismálum og við að dreifa ferðamönnum betur um landið. Of stór hluti ferðamanna sem kemur hingað til lands fer á fáa ferðamannastaði og eru margir þeirra farnir að láta á sjá. Þá verður að bregðast skjótt við. Þannig kunna ýmis brýn verkefni, sem mikilvægt er að ráðist verði í sem allra fyrst, að hafa mikil áhrif á það hvernig landsmönnum tekst að byggja upp og viðhalda innviðum sem gera ferðaþjónustunni kleift að vaxa og skila aukinni arðsemi.

Fyrirkomulag ferðamála í stjórnkerfinu er frekar flókið. Margar stofnanir sinna mörgum verkefnum og flækjustigið er mikið og samhæfing er erfið. Á haustmánuðum var sett á laggirnar Stjórnstöð ferðamála sem hefur það meginhlutverk að samhæfa aðgerðir ólíkra aðila sem allir vilja koma að ferðamálum með einum eða öðrum hætti, því að eins og áður kom fram hefur álagið á helstu innviði samfélagsins aukist mikið. Stjórnstöð ferðamála hefur gefið út Vegvísi í ferðaþjónustu með lista yfir helstu aðgerðir sem ráðast þarf í sem allra fyrst og þola litla bið.

Stjórnstöðin er hins vegar tímabundið verkefni og þegar komist verður yfir erfiðasta hjallann á þessu og næsta ári er mikilvægt að horft verði til framtíðar og mótuð framtíðarsýn í ferðamálum sem tekur tillit til þess hvernig landið skuli markaðssett fyrir ferðamenn, hvernig náist að dreifa ferðamönnum jafnar um landið, hvernig gætt verði að þolmörkum varðandi innviði samfélagsins, sátt milli atvinnugreinarinnar og ferðamanna og ekki síst að ferðaþjónustan verði í sátt við náttúruna og að unnið verði á grundvelli náttúruverndarsjónarmiða.

Uppbygging innviða á ferðamannastöðum er aðeins eitt þeirra verkefna sem mikilvægt er að ráðist verði í svo að ferðaþjónustan geti dafnað til framtíðar. Það frumvarp sem hér er til umfjöllunar er mikilvægt fyrir heildstæða skipulagningu á uppbyggingu innviða til lengri tíma svo að komast megi úr þeim viðbragðsfasa sem einkennt hefur uppbyggingu á ferðamannastöðum undanfarin ár.

Frumvarpið hefur fengið jákvæðar umsagnir og umfjöllun gesta nefndarinnar jafnt á þessu þingi sem og því síðasta. 1. minni hluti telur ástæðu til að árétta mikilvægi þess að frumvarpið er aðeins einn þáttur af mörgum sem þarf að vinna í við framtíðarfyrirkomulag ferðamála. Það er ekki mögulegt að hafa alla nauðsynlega þætti undir í einu en hins vegar er ljóst að samhæfing fjölda stofnana sem og sveitarfélaga sem koma að málaflokknum er mikilvæg.

Eitt mikilvægt atriði í frumvarpinu, sem horfir til framtíðar og mun nýtast á breiðum grunni, er kortlagning og rannsókn á þörfinni á uppbyggingu innviða á hverjum stað. Innviðir eru í frumvarpinu skilgreindir mjög vítt og geta samkvæmt 2. gr. frumvarpsins verið hvaðeina sem gerir kleift að taka á móti ferðamönnum og draga úr skemmdum eða öðru álagi á náttúruna, svo sem göngustígar, pallar, göngubrýr, áningarstaðir, merkingar, salerni, varsla, umgengnisreglur o.fl. Þannig þurfa innviðir ekki endilega að vera mannvirki heldur geta til dæmis verið landvarsla, vöktun og annað því um líkt. Þeir þættir eru enn mikilvægari á þeim stöðum þar sem ekki þykir rétt að byggja upp innviði í formi mannvirkja.

Líkt og fram kom í áliti meiri hluta nefndarinnar á síðasta þingi er mikilvægt að innviðir í náttúrunni séu í sátt við sitt nánasta umhverfi, falli vel að náttúrunni og auki gæði hennar en rýri hana ekki. Vanda þarf vel hönnun allra mannvirkja sem eiga að vera af miklum gæðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi og því mikilvægt að undirbúningi sé vel háttað en ein af undirstöðum þess að það sé hægt er raunhæf áætlun um uppbyggingu innviða til lengri tíma. Ég held að allir séu sammála um að við viljum síður sjá skúra eða gáma til að byggja upp eða bregðast við á ferðamannastöðunum okkar.

Þá áréttar 1. minni hluti mikilvægi þess að fjárveitingar til uppbyggingar innviða taki mið af þeirri miklu þörf sem til staðar er, en líkt og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið mun fjármögnun verkefna í landsáætlun vera á fjárlögum hvers árs.

Við umfjöllun nefndarinnar um málið var vikið nokkuð að því að skilgreiningar frumvarpsins í 2. gr. væru í samræmi við önnur lög og að ferðamannastaðir væru til að mynda ekki sérstaklega afmarkaðir í skipulagsáætlunum sveitarfélaga á grundvelli skipulagslaga. Líkt og reifað hefur verið er áætluninni ætlað að vera afar rúm og taka til að mynda til allra þeirra staða sem hafa aðdráttarafl fyrir ferðamenn enda er skilgreiningu ferðamannastaða einnig þannig háttað. Það fer hins vegar eftir hverjum og einum stað hvað telst heppileg uppbygging innviða, hvort um göngustíga er að ræða, eða önnur stærri mannvirki, hvort um landvörslu, vöktun eða til dæmis öryggiseftirlit er að ræða.

Til að áætlunin nái utan um sem flesta staði og að þannig verði hægt að marka raunhæfa framtíðaráætlun á þeim grundvelli þarf skilgreining á ferðamannastöðum að vera rúm en í því skyni er ekki nauðsynlegt að um sérstaklega afmarkaða staði í skipulagsáætlunum sveitarfélaga sé að ræða. Það er hins vegar ljóst að í einhverjum tilvikum þarf framkvæmdaleyfi eða byggingarleyfi til að hægt sé að ráðast í framkvæmdir vegna innviðauppbyggingar en það er ekki algilt. Þá er heldur ekki þörf á því að staðfest deiliskipulag sé fyrir hendi svo að hægt sé að veita leyfi. Það fer einfaldlega eftir því um hvers konar innviði er að ræða og á hvernig stað. Mikilvægt er að ekkert eða sem minnst falli utan gildissviðs frumvarpsins og þar með áætlunarinnar svo að móta megi heildstæða stefnu.

Þegar ég var að undirbúa framsetningu þessa álits fletti ég upp í reglugerð um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og bar það saman við það sem stóð í frumvarpi sem kom á síðasta þingi. Ég held að það sé til mikilla bóta að búið sé að breyta mótframlagi úr 50% niður í að mig minnir 20% núna. Ég fann heldur ekki regluna um að úthlutað skuli til eins árs en að vísu er það í orðanna hljóðan að þegar löggjafinn samþykkir fyrir hvert ár fjárframlög þá held ég að það verði alla vega komin mótun á þeirri framtíðarsýn að hægt sé að skipuleggja fjárþörf lengur en til eins árs.

Með vísan til framangreinds og umfjöllunar nefndarinnar á síðasta þingi leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Elín Hirst og Ásta Guðrún Helgadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Í fylgiskjali við nefndarálit þetta er álit nefndarinnar frá því á fyrra þingi. Undir nefndarálitið rita sá sem hér stendur, Haraldur Einarsson, Höskuldur Þórhallsson, formaður nefndarinnar, Birgir Ármannsson og Vilhjálmur Árnason.