145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

greining á sameiginlegum ávinningi að vestnorrænum fríverslunarsamningi og vestnorrænu viðskiptaráði.

75. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar. Undir það álit skrifa allir nefndarmenn og það er vegna tillögu til þingsályktunar um greiningu á sameiginlegum ávinningi af vestnorrænum fríverslunarsamningi og vestnorrænu viðskiptaráði. Hv. utanríkismálanefnd hefur fjallað um málið, gerði það á tveimur fundum, fékk á sinn fund Unni Brá Konráðsdóttur, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Ingu Dóru Markussen, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins, Vilborgu Ásu Guðjónsdóttur, alþjóðaritara Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, og á síðari fundi Högna S. Kristjánsson, Bergþór Magnússon og Ragnheiði Harðardóttur fá utanríkisráðuneyti, Sigurberg Björnsson frá innanríkisráðuneytinu og Sigurgeir Þorgeirsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Eins og þingheimur þekkir er með tillögunni lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að skipa ásamt landsstjórnum Færeyja og Grænlands vinnuhóp sérfræðinga sem fengi það verkefni að greina sameiginlegan ávinning sem yrði af vestnorrænum fríverslunarsamningi og vestnorrænu viðskiptaráði. Á fundi hv. utanríkismálanefndar fór formaðurinn, hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, vel yfir liðina í þessari tillögu og mikilvægi þess og nauðsyn þess sem kemur fram hjá Vestnorræna ráðinu að fjallað sé um og greindir kostir og gallar þess að gera slíkan vestnorrænan fríverslunarsamning eða tvíhliða samninga milli landanna.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að hún er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins sem samþykkt var á ársfundi ráðsins í Færeyjum 12. ágúst 2015. Þar kemur einnig fram að Vestnorræna ráðið hefur fjallað um möguleika á auknum viðskiptum og samstarfi landanna þriggja frá árinu 2007 á fundum sínum og telur að aukin viðskipti yrðu til hagsbóta fyrir löndin þrjú með auknum atvinnutækifærum og hagvexti og telur að það fyrirkomulag sem lagt er upp með í þessari tillögu væri hagfellt hvað það varðar.

Tillagan er einnig í samræmi við afstöðu Vestnorræna ráðsins sem fram kom á þemaráðstefnu þess í byrjun árs þar sem ráðið komst að þeirri niðurstöðu að þörf væri á frekari greiningu á umræddum sameiginlegum hagsmunum landanna og jafnframt þyrfti að draga fram þau svið þar sem ekki er grundvöllur fyrir slíku samstarfi. Loks taldi ráðið þörf á greiningu á mögulegum sameiginlegum ávinningi af vestnorrænum fríverslunarsamningi og viðskiptaráði.

Hv. utanríkismálanefnd er sammála þessu og telur jákvætt að unnið verði að greiningu á sameiginlegum ávinningi vestnorrænu landanna þriggja, Íslands, Færeyja og Grænlands. Eins og þingheimur þekkir gerðu Færeyingar og Íslendingar fríverslunarsamning árið 2005, svokallaðan Hoyvíkur-samning, og á milli Íslendinga og Grænlendinga er gamall fríverslunarsamningur frá árinu 1972. Fyrir nefndinni kom fram vilji stjórnvalda til að uppfæra þessa samninga og voru menn sammála um það sem komu sem gestir á fund hv. utanríkismálanefndar vegna málsins að með því sköpuðust tækifæri til að auka fríverslunartengsl milli landanna.

Nefndin telur því tillögu þessa geta orðið til að styrkja slík tengsl, svo og efnahag hinna vestnorrænu landa. Sú greining sem tillagan kveður á um ætti að vera mikilvægt skref í þá átt að tryggja aukna fríverslun við Grænland og Færeyjar sem og milli vestnorrænu landanna þriggja.

Niðurstaðan er sú að hv. utanríkismálanefnd leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt eins og hún var flutt hér. Hv. þm. Elín Hirst var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Frosti Sigurjónsson var einnig fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Undir þetta rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Karl Garðarsson, Vilhjálmur Bjarnason, Frosti Sigurjónsson, Óttarr Proppé, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Valgerður Bjarnadóttir.