145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

greining á sameiginlegum ávinningi að vestnorrænum fríverslunarsamningi og vestnorrænu viðskiptaráði.

75. mál
[17:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þingmanninum fyrir hlý orð í garð ráðsins og þeirrar sem hér stendur. Það er mikilvægt að fólk með reynslu af utanríkismálasviðinu komi að því að ræða þessi mál hér í þinginu. Því ber að fagna.

Varðandi Hoyvíkur-samninginn og Færeyjar þá er rétt að það hefur verið ákveðið og ráðist í að skoða hvort endurskoða beri samninginn og þá með hvaða hætti. Samningurinn er mjög víðfeðmur. Þegar ég var formaður Hoyvíkur-nefndarinnar, þingmannanefndarinnar um Hoyvík, átti ég fundi með fulltrúum úr atvinnulífinu í Færeyjum vegna þess að þessar efasemdarraddir, sem stundum heyrast í færeyskum þingmönnum, um ágæti samningsins, eru kannski það eina sem heyrist í fjölmiðlum. Þess vegna ákvað ég þegar ég leiddi nefndina síðast að funda með þeim sem nota samninginn; ég fundaði með fulltrúum atvinnulífsins í Færeyjum þegar ég var þar stödd. Saga þeirra er einfaldlega sú að samningurinn sé mjög góður, mjög víðtækur og nýtist færeysku samfélagi mjög vel. Ég hvet því alla þingmenn sem hér eru og hitta Færeyinga sem eru óánægðir með Hoyvíkur-samninginn — það eru bara þingmenn sem segja það — til að segja þeim að kynna sér nú málið aðeins betur og ræða við sitt fólk, þá sem nota samninginn. Hins vegar er alveg rétt að fara yfir samninginn, hann er 10 ára gamall, og kanna hvort eitthvað megi betur fara.

Varðandi Grænland þá lýst mér ágætlega á þá nálgun sem hv. þingmaður leggur hér fram. Grænlendingar vilja fara sér hægt. Þeir hafa engan áhuga á því að ganga inn í Hoyvíkur-samninginn, vilja að sjálfsögðu byrja með hreint borð og fara yfir það hvað þeir vilja. Þeir eru hins vegar ekki komnir þangað að þessar samningaviðræður séu næstar á dagskrá. Þess vegna væri mjög gott ef Ísland mundi leiða það að bjóða Grænlendingum heim til viðræðna um fríverslunarsamninga.