145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

langtímastefna fyrir samgöngur og innviði á Vestur-Norðurlöndum.

76. mál
[17:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson er mikill áhugamaður um að byggja upp innviði sem geta treyst samgöngur á okkar parti norðurslóða, og hefur lagt þar fram tillögur, þá vil ég leggja nokkrar hugmyndir í púkk míns góða vinar.

Í fyrsta lagi er ég þeirrar skoðunar að við eigum, að því er varðar flugsamgöngur, líka að hugsa vestar á bóginn og velta því fyrir okkur hvort ekki sé hægt að tengja betur flugsamgöngur alla leið yfir í norðurhéruð Kanada. Ég bendi á að flugfélag sem hefur heimastöð í höfuðborg hans kjördæmis er nú þegar farið að sinna nánast öllu rannsóknarflugi sem tengist ísarannsóknunum, og rannsóknir á þessum svæðum Kanada munu stóraukast á næstu árum þannig að þetta skiptir máli. Þarna er líka 100 þús. manna flugmarkaður, höfum það í huga.

Í öðru lagi verður Ísland alltaf á einhvern hátt hliðið að austurströnd Grænlands. Ef Grænlendingar kjósa að nýta jarðefni á þeim slóðum verður það tæpast hægt öðruvísi en í gegnum hlið sem heitir Ísland.

Í þriðja lagi. Ef hv. þingmaður er jafn mikill áhugamaður um umskipunarhöfn á Norðausturlandi og margoft hefur komið fram í tillöguflutningi hans, þá bendi ég honum á eftirfarandi: Það eru þrjár leiðir sem þar er hægt að fara, norðausturleiðin, sem opnast mjög seint út af straumum og þykkum ís sem þar hrannast upp; svo er það leiðin sem liggur meðfram Rússlandi, sem þeir eru að byggja upp, en hvorug þessara leiða er líkleg til að leiða til þess að Ísland verði umskipunarhöfn; þriðja leiðin, sem fáir mæla fyrir, en verður íslaus fyrst, er miðleiðin, hún skiptir máli. Þá er Ísland hinn náttúrulegi endapunktur. Hv. þingmaður á að beita sér fyrir því innan stjórnarliðsins (Forseti hringir.) og gagnvart sínum góða vini hæstv. utanríkisráðherra að henni sé lyft miklu meira en mér finnst vera gert nú um stundir.