145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fjármálafyrirtæki.

589. mál
[18:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta voru að minnsta kosti mjög skýr og afdráttarlaus svör hjá hæstv. fjármálaráðherra. Hann segir það algjörlega skýrt að forsenda þess að hægt sé að lyfta gjaldeyrishöftum í þeim mæli að lífeyrissjóðir komist út með sitt fjármagn að einhverju marki sé að vel takist til með útboðið á þeim stabba aflandskróna sem eftir er í Seðlabankanum. Við skulum vona að vel takist til.

Ég lýsti efasemdum um atburðaröðina hjá hæstv. fjármálaráðherra. Ég óska honum góðs gengis. Það skiptir máli fyrir okkur öll. En hvað sér ráðherra þá gerast ef ekki tekst nægilega vel til? Ég ætti kannski ekki að spyrja því að auðvitað þarf hæstv. ráðherra að hafa fulla trú á því sem hann er að gera. Ég sleppi því kannski að spyrja um plan B.

Varðandi stöðuna eins og hún er núna þá er það einfaldlega þannig að gjaldeyririnn sem kemur umfram inn í landið er tekinn til hliðar, það er borgað fyrir hann með peningum sem Seðlabankinn prentar og þar hleðst upp gjaldeyrisforði. Hann er orðinn ansi hár, en hann er nægur til þess að standast þá áreynslu ef þessum vaxtamunarviðskiptum — sem nú eru sennilega komin nálægt 80 milljörðum og jafnvel meira — ef þeim skyndileg sleppir og þessir peningar vilja út.

Gott og vel. Svona getur þetta ekki gengið til eilífðar. Við þurfum að vera með eitthvert plan varðandi það hvernig við tökum á þessum vaxtamunarviðskiptum. Við erum hér með Seðlabanka sem bókstaflega lýsir því yfir að líkur séu á vaxtahækkunum. Við sjáum að verðbólgan er að aukast sem eykur líkur á vaxtahækkunum. Til skamms tíma sýnist mér nú allt hníga í þá átt og miðað við þróun erlendis í Japan og Bandaríkjunum að hér sé sogkraftur sem sogi hingað (Forseti hringir.) peninga. Við verðum þá að hafa einhver tæki í handraðanum sem einhvers konar neyðarráðstafanir (Forseti hringir.) ef til stykkisins kemur. Hér talar stjórnmálamaður sem var á vellinum þegar þetta gerðist og er brenndur upp á herðablöð af þessu.