145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fjármálafyrirtæki.

589. mál
[18:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög mikilvægt mál sem hér er tekið upp í tilefni af framlagningu þessa frumvarps. Svörin við vaxtastefnunni og vaxtamunarviðskiptunum geta í sjálfu sér aldrei verið mjög einföld. Í augnablikinu erum við óbeint að kaupa okkur tryggingu fyrir þessum vanda og við borgum hátt iðgjald fyrir þá tryggingu, vegna þess að við borgum vexti af krónunum sem verið er að binda á móti. Það er hárrétt að eftir því sem sá hluti vex sem við þurfum að binda með þeim hætti þeim mun dýrara verður það fyrir okkur og þeim mun verr hlýtur manni að lítast á það sem einhverja viðvarandi lausn að kaupa einfaldlega allt innstreymið.

Þess vegna segi ég enn og aftur: Ég er sammála þingmanninum um að það skiptir máli að koma með varúðartæki, en þau verða, þegar allt kemur til alls, bara ein leiðin til að takast á við þetta. Það þarf hvað að styðja annað. Það hvernig við afgreiðum fjárlög hefur áhrif. Það hvernig við stillum upp okkar langtímaáformum í (Gripið fram í.) opinberum fjármálum hefur áhrif. Hvort vinnumarkaðurinn spilar með eða ekki hefur áhrif; þetta hefur allt áhrif. Seðlabankinn getur líka gert mistök á þessu sviði. Ef menn hækka vexti um of að óþörfu þá hefur það líka áhrif. Ég er þeirrar skoðunar að einhvers staðar sé að finna efri mörk þess sem hægt er að hækka vexti á Íslandi umfram það sem gerist í öðrum löndum. Það eru til efri mörk til að ná þessum klassísku lögbundnu markmiðum. En fari menn yfir þau efri mörk þá fara menn að kalla yfir sig aðra krafta sem setja af stað innflæði sem við getum óskaplega lítil áhrif haft á að öðru leyti. Þá er (Forseti hringir.) betra að fá yfir sig verðbólguna sem menn voru að reyna að berjast við með vaxtahækkuninni en vandann (Forseti hringir.) sem gæti fylgt vaxtamunarviðskiptum. En þessi umræða getur haldið áfram hér síðar og margt á eftir að gerast á næstu missirum vegna þessa.