145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

siðareglur fyrir alþingismenn.

115. mál
[19:04]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um siðareglur fyrir alþingismenn. Þingsályktunartillagan kom fram fyrr á þessu þingi og var borin fram af eftirtöldum hv. þingmönnum: Einari K. Guðfinnssyni, Kristjáni L. Möller, Silju Dögg Gunnarsdóttur, Valgerði Gunnarsdóttur, Steingrími J. Sigfússyni, Þorsteini Sæmundssyni, Róbert Marshall, Helga Hrafni Gunnarssyni, Ragnheiði Ríkharðsdóttur, Ásmundi Einari Daðasyni, Helga Hjörvar, Svandísi Svavarsdóttur, Brynhildi Pétursdóttur og Birgittu Jónsdóttur. Þáverandi forsætisnefnd þingsins og formenn þingflokka bera málið fram. Með öðrum orðum ríkti um málið mjög breið samstaða frá upphafi.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sendi málið til umsagnar og bárust umsagnir frá nokkrum aðilum, Gagnsæi, samtökum gegn spillingu, Lögmannafélagi Íslands og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Fulltrúar allra þessara stofnana komu á fund nefndarinnar sem hélt allmarga fundi um málið. Auk þessara aðila komu að sjálfsögðu einnig sérfræðingar Alþingis að málinu.

Ég ætla í máli mínu að vísa nokkuð í það sem fram kemur í nefndarálitinu, og stundum orðrétt, en við rekjum það hvernig hafi við meðferð málsins í nefndinni verið rætt um aðdraganda að samningu siðareglna fyrir þingmenn. Í júní 2011 voru samþykktar breytingar á lögum um þingsköp Alþingis þar sem kveðið var á um að leggja skyldi fram þingsályktunartillögu um siðareglur fyrir alþingismenn.

Í alþjóðasamfélaginu, segir í nefndarálitinu, hafa komið fram kröfur um aukið gagnsæi í störfum þjóðþinga og alþjóðastofnana. Í tengslum við úttekt á starfsemi þjóðþinga sem GRECO-nefndin hefur unnið að hefur hún hvatt þingmenn til að setja sér siðareglur, þar á meðal í þjóðþingum Norðurlanda, og var slíkum tilmælum beint til Alþingis í skýrslu hennar frá 22. mars 2013. Umrædd GRECO-nefnd starfar á vegum Evrópuráðsins.

Nefndin telur mikilvægt að auka gagnsæi í störfum Alþingis og bendir á að alþingismönnum er nú þegar skylt að gera opinberlega grein fyrir fjárhagslegum hagsmunum sínum og trúnaðarstörfum utan þings. Nefndin tekur fram að setning siðareglna fyrir alþingismenn sé af þessum sama meiði.

Á fundum nefndarinnar var fjallað um stöðu þingmanna sem þjóðkjörinna fulltrúa og almenna þýðingu þess að þeir setji sér siðareglur. Í 48. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að alþingismenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum. Fyrirmynd þess ákvæðis var 59. gr. tilskipunar um endurreisn Alþingis sem ráðgjafarþings þar sem kveðið var á um að sérhver alþingismaður mætti í störfum sínum einungis „fylgja samvizku sinnar sannfæringu um það, er verða megi almennings heill til eflingar, má hann ekki binda sig við neinar fyrirsagnir kjósenda“. Ekki er ætlast til þess að þingmenn séu hlutlausir í störfum sínum. Þvert á móti er það hlutverk Alþingis — á grundvelli sannfæringar meiri hluta þingmanna í hverju máli — að velja hvaða hagsmuni á að leggja áherslu á og veita framgang í löggjöf, eftir atvikum á kostnað annarra hagsmuna. Það er því á valdi þingmanna að ákveða hvaða hagsmunir skuli teljast almannahagsmunir sem stjórnvöld eiga að vinna að í störfum sínum. Við það val eru þingmenn ekki bundnir af öðru en sannfæringu sinni og ákvæðum stjórnarskrár. Nefndin tekur fram að þingmenn eru meðal annars kjörnir út frá því fyrir hvaða hagsmunum þeir beita sér. Nefndin telur mikilvægt að sjálfræði þingmanna í starfi sé virt og að setning siðareglna eigi ekki að breyta þeirri staðreynd. Nefndin telur að setning siðareglna sé mikilvægur liður í að efla traust almennings á störfum Alþingis, m.a. þar sem gert er ráð fyrir að upplýsingar um hagsmunatengsl þingmanna verði aðgengilegar. Nefndin leggur áherslu á að það er grundvallaratriði að vel takist til með framkvæmd reglnanna.

Í nefndinni var rætt um möguleg álitamál sem upp gætu komið við framkvæmd siðareglnanna, m.a. að því er varðar tjáningu og framkomu alþingismanna. Samkvæmt 2. mgr. 49. gr. stjórnarskrárinnar verður enginn alþingismaður krafinn reikningsskapar utan þings fyrir það sem hann hefur sagt í þinginu nema Alþingi leyfi. Á ummælum sínum utan þings bera alþingismenn ábyrgð sem aðrir. Nefndin bendir á að tilgangur siðareglnanna sé að efla gagnsæi í störfum alþingismanna, svo og tiltrú og traust almennings á Alþingi. Þær mæla fyrir um afmörkuð hátternisviðmið sem til þess eru fallin. Nefndin telur ljóst að þingmenn verði að hafa svigrúm til að tjá sig um störf þingsins og í almennri stjórnmálaumræðu og undirstrikar að siðareglur fyrir þingmenn geta ekki takmarkað stjórnarskrárvarið málfrelsi þeirra.

Í nefndinni var rætt um gildi siðareglna fyrir alþingismenn í ljósi ákvæða stjórnarskrár og annarra fyrirmæla í lögum um hátterni þingmanna. Í 47. og 48. gr. stjórnarskrárinnar felst að alþingismenn skuli vinna drengskaparheit að stjórnarskránni og að þeir séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína og ekki af fyrirmælum frá kjósendum sínum. Þá njóta alþingismenn víðtæks málfrelsis sem tryggt er í 2. mgr. 49. gr. stjórnarskrárinnar. Nefndin undirstrikar að siðareglur eru til fyllingar þeim ákvæðum í stjórnarskrá og almennum lögum sem gilda um störf þingmanna og eru fyrst og fremst skráning á viðteknum siðferðilegum viðmiðum.

Nefndin fjallaði nokkuð um eftirlit með framkvæmd siðareglna en í tillögunni er lagt til að forsætisnefnd skipi þriggja manna nefnd til fimm ára í senn, siðareglunefnd, sem taki til meðferðar erindi um meint brot á siðareglunum. Nefndin telur með hliðsjón af því að forsætisnefnd fer með úrskurðarvald í þessum málum og að þriggja manna nefndinni er einungis ætlað ráðgefandi hlutverk gagnvart forsætisnefnd sé rétt að áherslan sé á það hlutverk og leggur því til breytingar þannig að reglurnar taki mið af því. Nefndin lítur svo á að hlutverk hennar sé meðal annars að gaumgæfa álitamál, að beiðni forsætisnefndar, sem varða hugsanleg brot á þeim siðareglum sem þingmenn hafa sett sér, t.d. hvað varðar fjárhagslegt gagnsæi. Nefndin leggur áherslu á að þingmenn geta einnig skotið slíkum álitamálum til nefndarinnar ef þeir telja sig til dæmis borna röngum sökum. Nefndin leggur áherslu á að þessi ráðgefandi aðili hefur ekki úrskurðarvald með höndum og að forsætisnefnd fjallar um niðurstöðu nefndarinnar þegar hún liggur fyrir og tekur ákvarðanir um framhald ef tilefni þykir til.

Nefndin leggur til nokkrar orðalagsbreytingar í samræmi við ábendingar sem eru til þess fallnar að einfalda og skýra reglurnar. Þá leggur nefndin til að siðanefnd verði þriggja manna ráðgefandi nefnd, en auk þess leggur hún til að þingmenn skuli staðfesta með undirskrift sinni að þeir hafi kynnt sér reglurnar og einnig að í stað þess að skilgreina fjárhæðarviðmið í reglum sem lúta að fjárstyrkjum og risnu verði vísað til reglna um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings.

Nefndin leggur til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Helgi Hjörvar var fjarverandi en skrifar undir álitið með vísan til 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda. Birgitta Jónsdóttir skrifar undir álitið með fyrirvara.

Undir þetta álit skrifa auk mín hv. þingmenn Brynjar Níelsson, Birgitta Jónsdóttir, með fyrirvara sem áður segir, Helgi Hjörvar, Höskuldur Þórhallsson, Birgir Ármannsson, Elsa Lára Arnardóttir, Árni Páll Árnason og Willum Þór Þórsson.

Hæstv. forseti. Ég hef fyrst og fremst stuðst við nefndarálitið, reyndar lesið það að uppistöðu til, og ætla ekki að hafa fleiri orð um málið, a.m.k. ekki að sinni.