145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

stefna um nýfjárfestingar.

372. mál
[19:55]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður smellir sér ekkert á svona álit eða þingsályktunartillögu sem manni líkar ekki. Það er stundum þannig að hlutirnir eru settir óskýrir fram til þess að geta svo sagt — og það er það sem ég óttast varðandi þessa tillögu, því að væntanlega verður hún samþykkt í þinginu og væntanlega með miklum meiri hluta af því að hér eru allir aðrir flokkar en Björt framtíð á blaði. Landsvirkjun vildi í umsögn sinni fá skýrar fram viðbætur við tillöguna, sér í lagi í athugasemdum sem lúta að nýfjárfestingum og málefnum tengdum orkuiðnaði. Meiri hlutinn brást við því og lýsti skilningi sínum á sérstöðu Íslands, sem tíunduð er í þingsályktunartillögunni, og leggur þar áherslu á að nýta þá orku sem hér er að finna og hægt er að virkja.

Þess vegna segi ég: Ég hef áhyggjur af því að ef sú tillaga sem hér liggur fyrir verður samþykkt geti hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórnin öll sagt: „Sjáið til, hér hefur þingið staðfest þingsályktunartillögu sem segir að til þess að við fáum fleiri fyrirtæki hingað til lands þurfum við meiri orku.“ Ég er ekki til í það eða að leggja nafn mitt við það og það mun ég aldrei gera. Þess vegna tel ég tillöguna varhugaverða.