145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

stefna um nýfjárfestingar.

372. mál
[20:16]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Ég get ekki annað en brosað út í annað af því að hv. þingmaður þekkir vel hvernig málið og umræður um það voru í hv. atvinnuveganefnd við vinnslu þessa nefndarálits. Ég ætla ekkert að fara út í það af því að það er eitthvað sem gerðist á fundum og mér finnst ekki mitt að segja frá því.

En ég var ósammála nefndarmönnum þar. Ég var ósammála meiri hluta hlutanum um þær áherslur sem áttu að fara í þetta meirihlutaálit og við vitum hvernig það var rætt. Svo endaði það kannski aðeins mildar, þetta nefndarálit meiri hlutans og það er gott. En ég segi bara að skoðanir mínar samræmast ekki þeim skoðunum sem mest bar á.

Ég ítreka enn og aftur að stefna um nýfjárfestingar er ofboðslega mikilvæg og það er svo mikið tækifæri til að lýsa nákvæmlega hvernig við ætlum að styðja við fjölbreyttan atvinnuveg, fjölbreytta þróun í því hvernig við byggjum upp allar stoðir hérna. Og ég varð fyrir miklum vonbrigðum með það að síðast á blaði voru skapandi greinar og það sem átti að fá að koma með.