145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Það má margt um ríkisstjórn hægri flokkanna að segja og þinglið þeirra. En eitt gott er þó að þeir sjá okkur fyrir ágætu umræðuefni frá degi til dags. Það sem var ferskt og fínt í umræðu í gær er orðið úrelt og gamalt í dag, því miður.

Nú er komið í ljós að forsætisráðherrahjónin eru í gegnum peningafélag sitt skráð á Tortólu meðal kröfuhafa í alla íslensku bankana upp á mörg hundruð milljónir króna. Á meðan íslenskur almenningur, fjölskyldur og heimili, þurftu í gegnum hrunið og í kjölfar þess að berjast frá degi til dags til að halda heimili sínu gangandi innan gjaldeyrishafta og fallinnar krónu og reyna að standa í skilum með skuldbindingar sínar voru forsætisráðherrahjónin að höndla með fjölskylduauðinn í erlendum skattaskjólum.

Á sama tíma og forsætisráðherrann krafðist þess ítrekað úr þessum ræðustól á síðasta kjörtímabili að fá að vita hverjir væru raunverulegir eigendur bankanna, hverjir kröfuhafarnir væru, hrægammarnir, var hann einn af þeim. Þetta setur slagorð Framsóknarflokksins um heimilin í landinu í allt annan og óskemmtilegri búning en hingað til.

Það er allt rangt við þetta mál, virðulegi forseti, og það stenst á engan hátt réttmætar lágmarkskröfur sem gerðar eru til stjórnmálamanna. Það er því fullkomlega eðlileg ósk að þessum þingfundi verði nú frestað og forsætisráðherra verði gert kleift að útskýra mál sín fyrir Alþingi. Jafnframt er eðlilegt að gera kröfu til annarra ráðherra og þingmanna sem enn hafa ekki upplýst um sambærileg mál, ef einhver eru, að þeir fái tækifæri til þess sömuleiðis. Það væri farsakennt, virðulegi forseti, að (Forseti hringir.) halda þessum þingfundi áfram án þess.

Ég ítreka þá ósk mína að þingfundi verði frestað og forsætisráðherra útskýri mál sín fyrir Alþingi.


Tengd mál