145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Stjórn Dýraverndarsambands Íslands telur í hæsta máta óeðlilegt að þeir sem eru grimmir við dýr séu styrktir með opinberu fé í gegnum búvörusamning og vill að Alþingi komi breytingum þar að lútandi að í nýjum búvörusamningi. Í nefndaráliti atvinnuveganefndar Alþingis um frumvarp til laga um velferð dýra sem lagt var fram á Alþingi 2013 beindi nefndin því til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að taka þetta atriði sérstaklega til skoðunar við endurskoðun búnaðar- og búvörulaga og endurnýjun samninga á grundvelli þeirra.

Það er óeðlilegt að menn sem þiggja greiðslur úr ríkissjóði brjóti um leið lög. Það hefur komið skýrt fram í umræðunni að undanförnu, sérstaklega í tengslum við slæman aðbúnað á sumum svínabúum eftir úttekt Matvælastofnunar, að almenningur á Íslandi er ekki tilbúinn að gefa neinn afslátt þegar velferð dýra er annars vegar.

Ég tek undir með stjórn Dýraverndarsambandsins og tel eðlilegt að heimilt verði að fella niður opinbera styrki vegna dýraníðs og að það komi inn í hinn nýja búvörusamning. Almennt um nýjan búvörusamning vil ég segja að ég hef mikla trú á íslenskum landbúnaði og tel að hér séu framleiddar einhverjar bestu matvörur í heimi, m.a. með minnstu sýklalyfjanotkun í heimi sem er afar mikilvægt. Ég vil hins vegar sjá landbúnaðinn losna úr viðjum úrelts kerfis styrkja og ríkisafskipta sem við búum við núna og ég tel að haldi aftur af mönnum í greininni og þeim tækifærum sem þar eru.


Efnisorð er vísa í ræðuna