145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ferðaþjónustudagurinn var haldinn í gær. Það var hollt fyrir þingmann að upplifa þann kraft og gleði sem býr í forustufólki ferðaþjónustunnar. Tekjur greinarinnar vaxa dag frá degi, eru um 1,2 milljarðar á dag og verða rúmir 400 milljarðar á árinu. Flest vandamál greinarinnar eru jákvæð til úrlausnar í kraftmikilli grein. Dreifing ferðamanna um landið og aðgengis- og öryggismál eru mikilvægir þættir sem unnið er að.

Alþingi og ríkisstjórn stendur sína plikt, hraðar innviðauppbyggingu, viðhaldi vega og tekur upp sem fyrst gjaldtöku ferðamanna til að standa undir kostnaði við frekari innviðauppbyggingu í landinu. Sveitarfélögin og landeigendur verða líka að taka þátt í þeirri uppbyggingu. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er öflugri en nokkru sinni og mikilvægt er að nýta það fjármagn sem þar er til uppbyggingar á ferðamannastöðum, bæta öryggi og merkingar um landið. Bílastæði og salerni sem rekin eru með þjónustugjöldum eru verkefni sem sveitarfélög og landeigendur eiga að horfa til og taka upp.

Ég sé ekkert nema tækifæri í ferðaþjónustunni. Þar vinnur dugmikið og framtakssamt fólk sem kann að nýta þau tækifæri sem eru í boði. Árangurinn talar sínu máli. Einstaklingsframtakið talar sínu máli. Ég óska ferðaþjónustunni til hamingju með árangurinn.


Efnisorð er vísa í ræðuna