145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Það er dapurlegt að heyra þegar hv. varaþingmenn koma hér og reyna að draga umræðuna niður í svaðið. Ég get ekki orða bundist um það.

Fæðingarorlof hefur verið mikið í umræðunni. Fæðingarorlof fyrir feður er eitt mesta jafnréttisspor sem stigið hefur verið hér á landi. Fyrir okkur, þessa gömlu sem nutum ekki þessa sanngjarna kerfis í barneignum okkar er sérstakt en ánægjulegt að sjá feður gangandi um bæinn með barnavagn. Það var nánast undantekning að sjá það hér áður fyrr. Ég viðurkenni reyndar að það var slæmt að missa unga og fríska menn í frí um hávertíð til að sinna börnum sínum, en það þykir sjálfsagt mál í dag, auðvitað er það sjálfsagt. Það hefur leitt til þess að ungir menn taka ekki aðeins meiri þátt í uppeldi barna sinna heldur taka þeir einnig mun meiri þátt í venjulegum heimilisstörfum.

Það er því dapurlegt að heyra frá sjómönnum að ítrekað hafni Fæðingarorlofssjóður umsóknum eða skerði greiðslur til sjómanna á grundvelli sjónarmiða og skilyrða sem ekki eiga sér stoð í lögum um sjóðinn. Hefur afgreiðsla sjóðsins á umsóknum sjómanna gefið til kynna algjört þekkingarleysi á störfum sjómanna, fyrirkomulagi og launakerfi þeirra sem er auðvitað frábrugðið því sem er hjá fólki sem starfar í landi.

Umboðsmaður Alþingis hefur síðustu ár ítrekað slegið á hendur sjóðsins og gert hann afturreka með ákvarðanir sínar, en engu að síður virðist sem sjóðurinn ætli að halda áfram á sömu braut. Vinnufyrirkomulag sjómanna hefur breyst mikið og byggist oft og tíðum á löngum útiverum og löngum fríum, sem má alls ekki verða til þess að útiloka sjómenn frá þeim sjálfsögðu réttindum sem allir aðrir þjóðfélagsþegnar hafa.


Efnisorð er vísa í ræðuna