145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Undanfarna daga hef ég verið að glugga í rannsóknarskýrslu Alþingis. Sér í lagi hef ég dokað við í áttunda bindinu, í siðferðiskaflanum svokallaða. Það er ekki að tilefnislausu.

Undanfarið hefur maður nefnilega haft á tilfinningunni að íslenskt samfélag sé að sigla aftur inn í nákvæmlega sama rugl og setti okkur lóðbeint á hausinn fyrir örfáum árum. Við horfum upp á gríðarlegan arð í fjármálakerfinu, himinháa bónusa, tryggingafélög að greiða út arð langt umfram hagnað, óútskýrðar útsölur á eignum banka til vildarvina án undangengins útboðs. Rannsóknarskýrsla Alþingis, halló!

Á sama tíma virðast ráðamenn vera uppteknastir af eigin duttlungum. Fá mál, ef nokkur, koma inn til þingsins. Ráðherrar eru uppteknir af því að flytja og sameina stofnanir um leið og þeir tína það sem þeim finnst mest spennandi inn á eigið borð. Styrkjafjárveitingum er sópað úr umsóknarumhverfi ofan í ráðherraskúffur. Áttunda bindi rannsóknarskýrslu Alþingis, góðan daginn!

Hvað varð um hið nýja Ísland, gagnsæið og átakið í faglegum vinnubrögðum sem allir töluðu um hér fyrir örfáum missirum? Hvar er mannréttindakafli nýrrar stjórnarskrár? Honum var sópað til hliðar. Hvar er nýi Landspítalinn? Jú, það er einhver að dunda sér við að rissa hann upp á nýjum stað.

Við horfum um þessar mundir á uggvænlega þróun í pólitík í löndunum í kringum okkur; forsetaframboð Donalds Trumps, gott gengi fasískra afla í Austur-Evrópu og nú síðast í héraðsþingakosningum í Þýskalandi.

Lýðræðið er ekki sjálfgefið. Gætum að, rannsóknarskýrsla Alþingis kom út árið 2010, fyrir rétt um sex árum síðan. Mikið er vald þeirra sem spila upp á gullfiskaminni fólks. Ég segi nú það, svei mér þá. Og sveiattan!