145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

hagsmunatengsl forsætisráðherra.

[15:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hef sömuleiðis verið að vona að komnir væru aðrir tímar og að menn væru talsmenn gagnsæis og þess að upplýsingar um hagsmunatengsl og aðra slíka hluti væru reiddar fram af fúsum og frjálsum vilja.

Við erum með á dagskrá þessa fundar tillögu til þingsályktunar um siðareglur alþingismanna. Þar stendur í tölulið f í 5. gr. að þingmönnum beri að greina frá öllum hagsmunum sem máli skipta og varða opinbert starf þeirra.

Í 8. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Þingmenn skulu við störf sín forðast árekstra milli almannahagsmuna og fjárhagslegra hagsmuna þeirra eða annarra hagsmuna sem eru faglegir, persónulegir eða tengdir fjölskyldu þeirra …“

Í 9. gr. segir:

„Þingmenn skulu vekja athygli á öllum hagsmunum sem máli skipta við meðferð máls …“

Vakti hæstv. forsætisráðherra athygli á fjölskylduhagsmunum sínum sem kröfuhafi í bú íslensku bankanna þegar hér voru til meðferðar frumvörp um stöðugleikaskatt og stöðugleikaframlög? Hefði hann ekki brotið siðareglurnar hefðu þær verið komnar til framkvæmda (Forseti hringir.) með því að gera það ekki? Og þannig mætti áfram telja.

Ég held að hv. þingmenn reisi ekki varnir fyrir hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) þegar það er tekið upp með réttmætum hætti að þessar upplýsingar (Forseti hringir.) voru ekki reiddar fram með því að tala um það sem árásir á konu hans.