145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[15:49]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp til heildarlöggjafar um fullnustu refsinga. Málið var tekið inn til nefndar á milli 2. og 3. umr. Ég þakka fyrir þær breytingar sem gerðar voru á frumvarpinu í þeirri umferð. Meðal annars er betrunin komin inn og það er mjög til bóta, ekki bara að hún skuli vera komin inn heldur líka skilgreining á henni. Ég fagna því líka að hér skuli gert ráð fyrir starfshópi til endurskoðunar fyrirkomulags rafræns eftirlits við afplánun refsinga sem er kominn inn.

Ég er engu að síður með fyrirvara við frumvarpið. Hann lýtur aðallega að endurskoðunarúrræðum yfirvalda til innheimtu sekta og sakarkostnaðar vegna þess að ég geld varhuga við því að seilast í laun þeirra sem hafa brotið gegn lögum og er með fyrirvara þess vegna. Eins hef ég fyrirvara um heildarsamhengi frumvarpsins því að ég tel (Forseti hringir.) að þess séu of mikil merki að verið sé að veita fjárvana kerfi valdheimildir á kostnað réttinda og betrunarmöguleika fanga. Við munum greiða atkvæði með breytingartillögunum en vera hlutlaus gagnvart frumvarpinu í heild.