145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

siðareglur fyrir alþingismenn.

115. mál
[16:09]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég tek undir orð annarra og fagna því að til séu komnar siðareglur sem taka á æðimörgu, m.a. hátternisskyldum okkar þingmanna, um það hvernig við komum fram í þingsölum, hvernig við tölum hvert um annað og hvernig við tökum á málum í þessum sal, og ekki bara það heldur líka með hvaða hætti við sem þingmenn íhugum hvert og eitt með okkur hvernig við ætlum að fara eftir þeim reglum sem hér eru.

Siðareglur breyta engu um siðferði fólks en það er okkar, hvers og eins, að velta fyrir okkur með hvaða hætti við getum fylgt þeim reglum sem hér eru og eigum það við siðferði okkar, hvert og eitt. Ég fagna framkomu þessa frumvarps, virðulegur forseti, og held að það sé ástæða til að óska forseta til hamingju sem hefur leitt þessa vinnu.