145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

kynslóðareikningar.

613. mál
[16:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við séum að skoða mál til framtíðar. Ég hef áður á þingferli mínum beðið um það sem kallað er hefðbundnir kynslóðareikningar. Ég vona að það sé beðið um það í þessu því að það skiptir mjög miklu máli að við hugsum til framtíðar.

Við samþykktum lög um opinber fjármál sem hafa akkúrat það að markmiði að við lítum ekki bara til næsta árs í fjárlögum heldur skoðum hlutina til lengri tíma. Það er mjög mikilvægt að við vitum hvaða skuldbindingar við höfum til lengri framtíðar, ekki síst hvað varðar unga fólkið. Sem betur fer stöndum við betur en flestar þær þjóðir sem við berum okkur saman við, t.d. af því að við erum með þannig lífeyrissjóðakerfi meðan þjóðir Evrópu, a.m.k. gömlu Evrópu, eru alla jafna með gegnumstreymiskerfi og eru mun skuldsettari en við.

Við eigum að hugsa til framtíðar og ég fagna því að þessi skýrslubeiðni sé komin fram. Við eigum að vinna með þessum hætti og ég ætla að greiða atkvæði með beiðninni.