145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

aðild Gvatemala að fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Mið-Ameríkuríkjanna.

543. mál
[17:25]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil gera grein fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu bókunar um aðild Lýðveldisins Gvatemala að fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Mið-Ameríkuríkjanna. Það er frá utanríkismálanefnd og er svohljóðandi:

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá utanríkisráðuneytinu.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á bókun um aðild Lýðveldisins Gvatemala að fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Mið-Ameríkuríkjanna sem undirrituð var 22. júní 2015 í Schaan í Liechtenstein.

Á 143. löggjafarþingi var ríkisstjórninni heimilað með ályktun Alþingis nr. 28/143 að fullgilda fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna og Lýðveldisins Kostaríka og Lýðveldisins Panama. Í athugasemdum við fyrirliggjandi tillögu kemur fram að ekki hafi tekist að ljúka viðræðum við Gvatemala á sama tíma og þær því haldið áfram. Þeim lauk í október 2014 og var aðild Gvatemala að fríverslunarsamningnum samþykkt af sameiginlegri nefnd samningsaðila í júní 2015.

Í athugasemdum við tillöguna er bent á að með aðild Gvatemala að fríverslunarsamningnum batni mjög aðgengi íslenskra útflytjenda að mörkuðum í Gvatemala þar sem tollar af hvers kyns sjávarafurðum og langflestum iðnaðarvörum falla niður. Niðurfelling tollanna dreifist þó að hluta til á allt að 15 ára aðlögunartímabil. Þá falla niður tollar af útflutningi ýmissa landbúnaðarvara frá Íslandi, t.d. á lambakjöti, lifandi hestum og hrossakjöti, auk þess sem tollar falla niður eða lækka af ýmsum öðrum unnum og óunnum landbúnaðarafurðum. Af hálfu Íslands eru tollar af hvers kyns sjávarafurðum og iðnaðarvörum felldir niður þegar í stað og einnig eru tollar lækkaðir eða felldir niður af ýmsum landbúnaðarvörum.

Viðskipti Íslands og Gvatemala hafa verið óveruleg fram til þessa en með lækkun og niðurfellingu tolla skapast aukin tækifæri á viðskiptum og aðgangur að markaði Gvatemala fyrir íslenska útflytjendur batnar.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Hv. þm. Elín Hirst var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Ég vil leyfa mér í framhaldi af þessu, virðulegi forseti, að nefna eftir samtal mitt við hv. þm. Elínu Hirst að hún er jafnframt fylgjandi afgreiðslu þessa máls en ekki vannst tími til að koma því inn í nefndarálitið.

Nefndarálit þetta er gefið út á Alþingi 3. mars 2016. Undir það rita hv. þingmenn Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, Vilhjálmur Bjarnason, sem er framsögumaður málsins, Karl Garðarsson, Frosti Sigurjónsson, Óttarr Proppé, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Valgerður Bjarnadóttir.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir nefndaráliti varðandi fullgildingu bókunar um aðild Lýðveldisins Gvatemala að fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Mið-Ameríkuríkjanna. Ég vona það að þetta sé góðu heilli gjört og verði báðum aðilum, EFTA-ríkjum og Lýðveldinu Gvatemala, til framdráttar.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.