145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

eignir í skattaskjólum.

[10:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Eflaust eru margvíslegar ástæður fyrir því að menn kjósa að koma upp félögum hér og hvar um heiminn, meðal annars á þessum stöðum. Þær geta verið jafn mismunandi og þær eru margar. Það sem við eigum að hafa áhyggjur af er þegar verið er að reyna að draga leyndarhjúp yfir það sem er raunverulega að gerast, þegar verið er að skjóta eignum undan, þegar verið er að koma í veg fyrir að veita réttar og nauðsynlegar upplýsingar til þess að skattframkvæmdin geti gengið fyrir sig lögum samkvæmt. Það eru tilfellin sem við eigum að hafa mestar áhyggjur af.

Sé því öllu sinnt er hitt í sjálfu sér minna áhyggjuefni, nema hvað það varðar að fyrirkomulagið á sumum þessara staða getur gert mönnum kleift að halda fólki í vafa um hvað er í raun og veru á seyði. Upplýsingaskiptasamningum, (Forseti hringir.) líkt og sá sem ég hef tiltölulega nýlega undirritað að frumkvæði OECD, er beint að slíkum tilvikum.