145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

ríkisstjórnarsamstarfið.

[10:44]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er svo sem ekkert leiðinlegt að vera í stjórnarandstöðu á þessu kjörtímabili. Það er svo margt sem fyrir augu ber sem illkvittnir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar kunna að hafa gaman af. Við getum rifjað upp fyrirvara þingflokks Framsóknarflokksins við heilt fjárlagafrumvarp frá hæstv. ráðherra. Við getum rifjað upp breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem aldrei komu fram. Við getum rifjað upp húsnæðisfrumvörpin sem voru mjög lengi í fæðingu, og orkustykkin sem hæstv. félagsmálaráðherra sendi hæstv. fjármálaráðherra til að reka hana áfram. Við getum talað aðeins um afnám verðtryggingar og kosningaloforð Framsóknarflokksins um það mál. Við getum talað um bankasöluna sem hæstv. fjármálaráðherra stendur fyrir en Framsóknarflokkurinn er á móti. Við getum talað um tillögur um úrbætur í fæðingarorlofsmálum sem einstakir þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala á móti. Við getum talað um búvörusamninga sem einstakir þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala líka á móti. Og svo getum við talað svolítið um Landspítalann sem ekki bara einhver þingmaður talar á móti staðsetningu á, staðsetningu sem margákveðin hefur verið á Alþingi, heldur er það sjálfur forsætisráðherra sem er leiðtogi ríkisstjórnarinnar.

Það kann að vera besta skemmtun fyrir einhverja illkvittna hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að rifja það upp, en það er auðvitað ekkert skemmtilegt fyrir þá sem þurfa að vinna undir hæstv. ríkisstjórn, til dæmis þá sem eiga að stýra málefnum þjóðarsjúkrahússins.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, formann Sjálfstæðisflokksins: Heilbrigðisráðherra hefur komið fram og sagt að hæstv. forsætisráðherra sé í raun og veru að bara að tala út í loftið, leiðtogi ríkisstjórnarinnar. Fylgir ríkisstjórnin þá ekki sínum forsætisráðherra að málum? Er kannski ástæða til þess, ekki fyrir mig eða aðra í stjórnarandstöðunni heldur fyrir þá sem þurfa að vinna (Forseti hringir.) undir leiðsögn ríkisstjórnarinnar, að ríkisstjórnin skoði samstarf sitt og stofni kannski sérstaka ráðherranefnd um bætt samstarf?