145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

ríkisstjórnarsamstarfið.

[10:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa miklu upptalningu. Það væri kannski fróðlegt að gera þetta að aðeins lengra sögulegu yfirliti. (Gripið fram í.) Við gætum farið aðeins lengra aftur í tímann og spurt okkur: Hvernig var þetta eiginlega þegar menn voru ósammála um Icesave-málið, um inngönguna í Evrópusambandið, (Gripið fram í.) um það hvort ákæra ætti í Landsdómsmálinu, hvernig fara ætti með stjórnarskrárbreytingarnar eða sjávarútvegsfrumvörpin og svo framvegis?

Þetta er það sem gerist þegar samsteypustjórnir eru við völd. Við erum ekki með einn flokk. Ég þakka ábendinguna um að koma á fót sérstakri ráðherranefnd til að smyrja hjólin. En ég ætla að vekja athygli á því að þegar rennt er yfir stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er alveg augljóst hvaða mál hafa verið í forgangi á þessu kjörtímabili. Við höfum sérstaklega verið að ræða um efnahagsmálin á þessu kjörtímabili í samræmi við áherslur stjórnarsáttmálans og við höfum náð miklum árangri á þeim sviðum. Við ræddum um skuldalækkanir fyrir skuldsett heimili. Það hefur náðst gríðarlegur árangur á því sviði. Við höfum rætt um uppgjör slitabúanna og með hvaða hætti við gætum unnið áfanga í átt að losun gjaldeyrishafta. Nú erum við í fyrsta skipti frá 2008 að sjá fram á að geta lyft höftunum.

Ég gæti talið svo lengi áfram, um aukin framlög til innviðauppbyggingar og samfélagslega mikilvægra þátta eins og aukinna framlaga til velferðarmála. Það eru þau verkefni sem skipta fólkið í landinu máli. Að menn séu síðan innbyrðis ósammála um áherslur í einstökum málum eru bara smámunir við hliðina á því að vinna þessa stóru áfanga. Ég held því að hv. þingmaður geti verið bara nokkuð róleg áfram svo lengi sem við skilum árangri fyrir þjóðina í því sem mestu skiptir.